*

Tíska og hönnun 1. nóvember 2017

Ólína hannar fyrir FÓLK

FÓLK Reykjavík sérhæfir sig í framleiðslu og markaðssetningu hönnunarvara fyrir heimilið.

Hönnunarfyrirtækið FÓLK og Ólína Rögnudóttir vöruhönnuður hafa gert með sér samstarfssamning um að Ólína hanni vörulínu fyrir hönnunarmerkið sem kemur út á vormánuðum 2018.

FÓLK vinnur með náttúruleg eða endurvinnanleg hráefni og hefur sjálfbærni að leiðarljósi í öllu framleiðsluferlinu, allt frá hönnun- og vöruþróun yfir í framleiðslu, notkun og endurvinnslu.

Ólína Rögnudóttir útskrifaðist sem vöru- og margmiðlunarhönnuður frá Copenhagen School of Design and Technology árið 2015. Hún er með AP gráðu í Multimedia Design & Communication og BA gráðu í Design & business, með sérhæfingu í vöruhönnun. Sem hönnuður þá vinnur Ólína mikið út frá upplifunarhönnun, sjálfbærni og umhverfi í þróun og mótun hugmynda og vöru.  

Fjárfest í hönnuðum og sköpunarverkum þeirra

Ólína bætist þar með í hóp hönnuða sem nú þegar eru í samstarfi við FÓLK. Vörulína eftir Jón Helga Hólmgeirsson vöruhönnuð er væntanleg á markað á næstunni auk þess sem fleiri verkefni eru í burðarliðnum í samstarfi við innlenda og erlenda hönnuði. Markmið FÓLKs er að fjárfesta í hönnuðum og hönnun þeirra og skapa þannig svigrúm fyrir þá til að skapa á meðan FÓLK sér um framleiðslu- og markaðssetningarferlið. Markmiðið FÓLKs er að auka hlutfall íslenskrar hönnunar sem fer í framleiðslu og markaðssetningu alþjóðlega.