*

Veiði 11. nóvember 2018

Öll fjölskyldan á kafi í veiði

Harpa Hlín Þórðardóttir er mikil veiðikona og hefur stundað skotveiðar í rúman áratug.

Sveinn Ólafur Melsted

Harpa Hlín Þórðardóttir er mikil veiðikona og hefur stundað skotveiðar í rúman áratug. Á æskuárunum byrjaði Harpa að stunda stangveiði með föður sínum og veiddi þá á spún. Árið 2000 byrjaði Harpa svo að stunda fluguveiðar.

Harpa segir að á sínum tíma hafi hún ekki verið viss um að skotveiði myndi heilla hana en hún hafi þó viljað prófa til að athuga hvort sér fyndist hún skemmtileg. „Þegar ég prófaði skotveiðina í fyrsta skiptið var eiginlega ekki aftur snúið. Það þarf svo margt að heppnast til þess að maður nái dýri. Undirbúningurinn frá því að maður ákveður að fara í veiði, eltingaleikurinn við dýrin og allt annað í kringum skotveiðiferðir þykir mér heillandi. Stang- og skotveiði er mjög stór partur af lífi okkar fjölskyldunnar. Við vinnum við að fara með fólk í veiðiferðir og því er þetta meira en bara áhugamál. Börnin okkar fara einnig mikið með okkur í veiði og því er öll fjölskyldan á kafi í þessu."

Sérhæfa sig í veiðiferðum

Harpa stofnaði fyrirtækið Iceland Outfitters í lok árs 2014 ásamt eiginmanni sínum, Stefáni Sigurðssyni. Fyrirtækið er ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðiferðum.

„Við skipuleggjum ferðir í allar veiðar sem hægt er að fara í á Íslandi. Við erum með einn starfsmann í fullri vinnu hjá okkur en svo erum við einnig með leiðsögumenn og bílstjóra á okkar snærum. Starfsemin hefur vaxið nokkuð frá því að við stofnuðum fyrirtækið og við gætum ekki ráðið við núverandi umfang ein."

Þessa dagana stendur yfir rjúpnaveiðitímabilið. Að sögn Hörpu fer hún á rjúpuveiðar en þó í minna mæli en hún myndi vilja.

„Síðustu ár hef ég bara farið eina helgi á veiðar þar sem við erum mjög upptekin á þessum tíma við að fara með hópa í gæsaveiðar uppi á Melum. Á vissu tímabili förum við nánast þangað á hverjum degi með hópa og það er erfitt að komast frá því til þess að fara á rjúpuveiðar. Okkar tímabil fyrir gæsaveiðar er frá miðjum september og út nóvember, en það er besti tíminn til að veiða gæsir.

Ég skammast mín eiginlega að segja frá því en við erum ekki með rjúpu í jólamatinn heldur er hamborgarhryggur á boðstólum. Eina skiptið á ári sem við borðum svínakjöt er því á aðfangadag. Við borðum þó mikið af villibráð í kringum jólin og áramótin."

Sífellt fleiri konur stunda skotveiði

„Mér finnst eins og það séu sífellt fleiri konur að byrja að stunda skotveiði, að minnsta kosti í kringum mig. Ég og fleiri konur erum með hóp sem heitir T&T International og er hann ætlaður konum sem hafa áhuga á veiði. Við förum reglulega saman á skotveiðar, bæði innanlands sem og erlendis. Flestar af þeim konum sem hafa komið með okkur að veiða eru byrjendur og eru því að stíga sín fyrstu skref með okkur. Ég sé því klárlega aukningu á konum sem eru í kringum mig í skotveiði og mér finnst eins og áhugi kvenna á skotveiði sé að aukast.

Ferðirnar erlendis hafa gengið mjög vel. Við höfum farið til Eistlands og Skotlands en yfir veturinn höfum við verið að hittast í Skotíþróttafélagi Kópavogs til að æfa okkur að skjóta. Það er eiginlega nauðsynlegt að kunna að umgangast vopn og hafa smá reynslu af því að skjóta úr byssu áður en farið er í svona ferð og því tilvalið fyrir hópinn að æfa sig saman fyrir ferðina. Svo snýst veiði um margt annað en að skjóta. Þættir eins og samkennd, þolinmæði og samvinna eru ekki síður mikilvægir. Við erum nýkomnar heim úr veiðiferð frá Eistlandi og förum svo til Skotlands næsta vor. Svo er önnur haustferð á döfinni á næsta ári sem verður fimm ára afmælisferð T&T. Það er mjög gott fyrir byrjendur að fara til Skotlands í veiðiferð þar sem að þar er töluvert mikið af dýrum og umhverfið er öruggt. Það fer leiðsögumaður með manni í slíka ferð og kennir manni nánast allt sem þarf að kunna," segir Harpa.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: skotveiði