*

Hitt og þetta 9. nóvember 2005

Öll heimili landsins með ISDN tengingu

Síminn áformar að ljúka ISDN væðingu sinni í sveitum nú í nóvember 2005 með tengingu við um 30 bæi á Vestfjörðum. Þar með eiga nær 100% heimila landsins kost á stafrænu gagnaflutningssambandi um ISDN sem er einsdæmi í heiminum. Þetta kemur fram í skýrslunni "Upplýsingatækni í dreifbýli" sem unnin var á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Hún verður kynnt á ráðstefnu í Reykholti á morgun.

Munurinn á ISDN og ADSL þjónustu felst í því að ADSL þjónustan er fyrst og fremst sniðin fyrir gagnaflutning í þéttbýli en ISDN þjónustan er bæði fyrir þéttbýli og dreifbýli og hefur mjög víðtæka notkunarmöguleika fyrir sambland af stafrænni tal- og gagnaflutningsþjónustu. Til þess að eiga möguleika á að tengjast ADSL verður viðkomandi að vera innan 3-5 km frá næstu símstöð til þess að línan beri gagnaflutninginn á meðan ISDN nær, þegar best lætur, vel á annan tug km frá símstöð. Það takmarkar því möguleika á uppbyggingu ADSL í dreifbýli og því hefur Síminn lagt áherslu á ISDN til að veita hágæða talsímaþjónustu til allra landsmanna auk lághraða gagnaflutningsþjónustu.

Síminn hefur varið um 700 milljónum í uppbyggingu á símakerfinu frá árinu 2002 og hafa verið settar upp um 80 símstöðvar til þess að þétta kerfið
og gefa öllum landsmönnum kost á ISDN sambandi og meiri talgæðum.
Með ISDN býðst viðskiptavinum hágæða talsímaþjónusta sem einnig er hægt að nýta sem nettengingu. Með því fær viðskiptavinurinn tvær línur inn til sín og getur valið hvernig hann nýtir þær. Hægt er að nýta eina línu fyrir símaþjónustu, t.d. að hafa mörg símanúmer á sömu línunni og möguleika á SMS, og aðra fyrir nettengingu.