*

Sport & peningar 25. júlí 2021

Ólympíuleikarnir orðnir of stórir?

Björn Berg Gunnarsson telur að mögulega þurfi að finna Ólympíuleikunum varanlagt heimili í einni borg, t.d. Aþenu eða Los Angeles.

Ólympíuleikarnir hafa reynst mótshöldurum mjög dýrir í gegnum söguna en leikarnir hafa frá árinu 1960 aldrei staðist fjárhagsáætlun, hvorki vetrar- né sumarleikarnir. Að meðaltali hafa Ólympíuleikarnir farið 150% fram úr áætlun. Fjöldi viðburða hefur aukist milli hverja leika og verða alls 339 talsins á Tókýó Ólympíuleikunum. Meðal íþrótta sem bætast við leikana í ár eru keppnir í hjóla- og brimbrettum. 

Viðskiptablaðið ræddi við Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, sem hefur í gegnum árin rýnt í fjármál stórra alþjóðlegra íþróttaviðburða. Hann segir Tókýóleikana vera þá langdýrustu í sögunni og að þeir verði að líkindum þrefalt dýrari en upphaflega stóð til.

Sjá einnig: Óumbeðið ólympíumet 

Spurður hvort umfang leikanna sé orðið of mikið segist Björn telja svo vera. Miðað við kröfurnar sem lagðar séu á mótshaldara verði aldrei arðbært fyrir þjóðir að vera gestgjafar leikanna. 

„Það getur þó falist ávinningur í því að halda mótið. Annars vegar er það skemmtanagildið, en sum lönd gætu alveg verið tilbúin að borga fyrir að fá að halda stærsta partí heims. Það er ein leið til að réttlæta að halda svona mót. Hitt er pólitískur ávinningur þjóðarleiðtoga sem sjá tækifæri í því að tengja sig beint við þessi stórmót sem gefur þeim vissan trúverðugleika."

Aftur á móti virðist afstaða Japana gagnvart leikunum leiða til annarrar niðurstöðu, en fylgi Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, stendur nú í 33%. Einnig má túlka það svo að Evrópubúar séu ekki jafn hlynntir því að halda Ólympíuleikana, en sjö evrópskar borgir drógu umsóknir sínar fyrir næstu tvo sumarólympíuleika til baka eftir mótbyr frá almenningi. 

Björn hefur áður viðrað hugmyndir um að Ólympíuleikarnir verði alltaf haldnir á sama stað til að koma í veg fyrir að þjóðir þurfi að ráðast í dýrar framkvæmdir fyrir viðburð sem endist í rúmar tvær vikur. Hann hefur nefnt Aþenu og Los Angeles sem möguleg heimili leikanna. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér