*

Bílar 19. október 2017

Ómótstæðilegur ofurbíll

Nýr og breyttur Mercedes-Benz S-Class býður upp á nuddaðgerð í sætunum, loftfrískun auk sjálfstýringar.

Nýr og breyttur Mercedes-Benz S-Class var kynntur bílablaðamönnum í Zurich í Sviss fyrir skömmu síðan. S-Class er flaggskip bílaflota Mercedes-Benz og hátæknivæddur lúxusbíll. Í AMG útfærslunni sem prófuð var er hann sannkallaður ofurbíll í öllum skilningi þess orðs.

Bíllinn er fallegur bíll að utan sem innan. Ný vatnskassahlíf, með fjórum rimum, dregur fram laglegan framsvip bílsins ekki síður en flott vélarhlífin og vel hönnuð LED ljósin að framan. Nýju þriggja raða, tvílitu LED afturljósin setja fallegan svip á afturhlutann.

Lúxus og dekur

Umhverfið í stóru innanrými nýju S-línunnar snýst að miklu leyti um vellíðan og afslöppun. Lúxusinn og tæknin er allsráðandi í S-Class. Sætin eru úr Nappa leðri og sérlega þægileg. Fagurlega valin efnisáklæði og litasamsetningar. Hér er passað upp á afbragðs frágang og alúð við hvert smáatriði. Umhverfislýsingin í innanrýminu gefur notalegt viðmót.

Áberandi er skrautlisti úr við sem nær utan um allt farþegarýmið. Hann kallast skemmtilega á við nútímalega hönnunina og vekur upp tilfinningar fyrir miklu rými og friðsæld. Stjórnrofar eru úr áli og yfirborðsfletir þeirra eru með perluáferð. Það er dekrað við ökumann og farþega. Val er um nuddaðgerð í sætunum og þau eru einnig með loftfrískun.

Farþegar njóta ríkulegrar afþreyingar í gegnum skemmti- og umhverfishljómkerfi og það á örugglega engum eftir að leiðast. Ein mesta breytingin á S-Class er undir húddinu en þar eru nýjar bensín- og dísilvélar.

Ég fékk að prófa bílinn í AMG-útfærslunni, nánar tiltekið S63 AMG, og bíllinn er algerlega magnaður. Hann er með sérstöku og kraftalegu AMG útliti á framenda með svörtum, hágljáandi vindrimum og sílsahlífum og aftursvuntu með hágæða krómí- greypingum.

Rosaleg vél undir húddinu

Undir húddinu kraumar rosaleg vél og það heyrist guðdómlega fallega í henni. Í AMG-útfærslunni er S-Class með svakalega 5,5 lítra V8 bitturbo ofurvél sem skilar alls 612 hestöflum og 900 Nm í togi. Þetta eru rosalegar tölur fyrir rúmlega tveggja tonna bíl en sannar engu að síður. Þessi vél er ein aflmesta fjöldaframleidda V8 biturbo vél heims.

Bíllinn er ofboðslega fljótur í upptakinu og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,5 sekúndum. Aksturinn er hreinlega eins og í ævintýri í þessu magnaða ökutæki. Bíllinn steinliggur á veginum og ökumaður og farþegar sitja í hnausþykkum leðursætum sem viðhalda þægindunum þótt hugur og hjarta sé á fleygiferð í akstrinum.

Sjö þrepa AMG Speedshift MCT sjálfskiptingin passar vel upp á hámarksvinnslu og AMG Performance 4MATIC fjórhjóladrifið tryggir hámarks veggrip og aksturseiginleika. Skiptir þá engu máli hvort gatan er þurr, blaut eða snjóug. Við þetta bætist AMG sportfjöðrunin byggð á hinu háþróaða Airmatic kerfi og hraðanæmt sportstýrið sem er ótrúlega stöðugt þótt ekið sé hratt, raunar mjög hratt á köflum í þessum reynsluakstri.

Nánar er fjallað er um Mercedes-Benz S-Class í aukablaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Zurich  • reynsluakstur  • Mercedes-Benz  • S-Class