*

Heilsa 12. mars 2013

Ónæmi fyrir sýklalyfjum tifandi tímasprengja

Ónæmi fyrir sýklalyfjum er ógn við fólk um allan heim, segir breskur heilbrigðisstarfsmaður. Sóttvarnarlæknir segir vandamálið alvarlegt.

Lára Björg Björnsdóttir

Ónæmi ákveðinna sýkla fyrir sýklalyfjum fer að nálgast hættumörk og er jafn mikil ógn við Bretland og hryðjuverk, að sögn Sally Davies prófessors innan breska heilbrigðisráðuneytisins. Þetta má lesa hér á vefsíðunni Health 24.

Sally líkir ástandinu við tifandi tímasprengju og tekur dæmi um að venjulegar mjaðmaaðgerðir gætu orðið lífshættulegar ef fólk smitast af sýklum sem orðnir eru ónæmir fyrir slíkum lyfjum.

Sally hefur hvatt Bretland til að vekja athygli á málinu á næsta leiðtogafundi G8 ríkjanna. Hún segir ógnina ekki aðeins eiga við Bretland heldur alla heimsbyggðina og sé alveg jafn alvarleg og hlýnun jarðar.

En hvað segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir við slíkum fullyrðingum? „Við þurfum að huga vel að þessu, þetta er búið að vera þekkt vandamál alveg síðan sýklalyfin komu fram,“ segir Haraldur.

Hann segir að hingað til hafi menn framleitt nýjar gerðir af sýklalyfjum þegar ónæmi kemur upp: „En það er svo dýrt að lyfjaiðnaðurinn dregur við sig að þróa ný lyf og svo þegar ónæmið heldur áfram að aukast gegn þeim lyfjum sem við höfum þá fækkar meðferðarúrræðum. Þá þarf að reyna að grípa til annarra aðgerða eins og að fara gætilega og sparlega með lyfin. Og þá hægir á þessari ónæmismyndum.“

Haraldur segir stóra vandamálið úti í heimi vera það að þar sé hægt að komast yfir sýklalyf án lyfseðils en þó sé vitundarvakning á meðal heilbrigðisstarfsfólks og margir séu að taka sig á í þessum efnum. Haraldur segir að hér heima séu margháttaðar aðgerðir í gangi til að sporna við þessari ónæmismyndun: „Við leggjum mikla áherslu á sýkingavarnir og fylgjumst meðal annars með fólki sem hefur verið á spítölum erlendis og þá er athugað hvort þeir beri með sér ónæmi. Þetta er varnarbarátta. Við erum að vonast til að fá bóluefni við eins mörgum sjúkdómum og hægt er.“

Haraldur segir að ef til vill sé þessu slegið fram, líkt og gert er í greininni hér að ofan, til að vekja athygli á vandanum enda er um mjög alvarlegt mál að ræða: „Við reynum að vekja athygli á skynsamlegri notkun sýklalyfja. En þetta er val sem læknirinn stendur alltaf frammi fyrir. Þetta er jafnavægiskúnst,“ segir Haraldur.

Stikkorð: Haraldur Briem  • Sýklalyf