*

Bílar 23. desember 2019

Opel Corsa valinn bestu kaupin

AUTOBEST hefur valið Opel Corsa bestu bílakaupin fyrir næsta ár.

Róbert Róbertsson

Opel Corsa hlaut á dögunum titilinn bestu kaupin í Evrópu eða ,,Best Buy Car of Europe 2020“. Að valinu stendur AUTOBEST, sem er stærsta óháða bíladómnefnd Evrópu og fulltrúi 95% íbúa í 31 Evrópulandi.

Fimm bílgerðir komust alla leið í úrslit og við tóku víðtækustu prófanir sem AUTOBEST hefur nokkru sinni staðið fyrir. Opel Corsa stóð uppi sem sigurvegari með flest gæðastigin. ,,Allir bílarnir sem komust í úrslitin eru verðugir fulltrúar fyrir þau gæði sem bestu bílar Evrópu standa fyrir. Dómnefndin var þó sammála um að Opel Corsa skyldi hljóta titilinn bestu kaupin í Evrópu 2020," segir Ilia Seliktar, forseti dómnefndar.

Á síðasta ári voru fulltrúar AUTOBEST á því að sigurvegari komandi árs þyrfti að vera rafmögnuð nýjung. ,,Það gekk sannarlega eftir með valinu á Opel Corsa, því segja má að hér sé kominn hinn fullkomna tæknilausn í rafmagnsbíl sem er aðgengilegur almenningi," segir Ilia. AUTOBEST sigurvegari þessa árs er sá fyrsti í sögu okkar sem segja má að sé lýsandi táknmynd þeirrar framtíðar sem rafvæðing bílaiðnaðarins bíður upp á.“

Að sögn Benedikts Eyjólfssonar forstjóra Bílabúðar Benna er 100% rafmagnaður Opel Corsa væntanlegur í hús á nýju ári.