*

Veiði 29. maí 2016

Óperusöngvarar opna Norðurá

Laxveiðitímabilið hefst á laugardaginn þegar stórsöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Kristján Jóhannsson opna Norðurá.

Trausti Hafliðason

Veiðifélag Norðurár hefur ákveðið að flýta opnun laxveiðitímabilsins um einn dag. Venjulega hefur áin opnað 5. júní, eins og í Blöndu, en nú hefst veiði klukkan átta fyrir hádegi þann 4. júní.

„Við ætlum okkur að vera fyrstir í ár," segir Einar Sigfússon, sem sér um veiðileyfasölu og rekstur veiðihússins. „Það er nú þegar genginn lax í ána, um helgina síðustu sýndi sig lax á Stokkhylsbrotinu og síðan sá ég lax á Eyrinni."

Þegar Stangaveiðifélag Reykjavíkur var með Norðurá á leigu var hefð að stjórn félagsins opnaði ána og bauð fjölmiðlum að fylgjast með. Þessari hefð hefur verið haldið síðustu ár fyrir utan auðvitað að stjórnin opnar ána ekki lengur. Árið 2014 voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson fengnir til að opna og í fyrra opnuðu Bubbi Morthens og Björgvin Halldórsson ána.

„Að þessu sinni munu stórsöngvararnir Kristinn Sigmundsson og Kristján Jóhannsson opna ána," segir Einar. „Nú ætlum við að byrja klukkan átta en ekki sjö eins og við höfum venjulega gert."

Undanfarin ár hafa verið miklar sveiflur í laxveiðinni á Íslandi. Spurður hvernig honum lítist á þetta sumar svarar Einar: „Það er svolítið erfitt að átta sig á því og við rennum auðvitað blint í sjóinn eins og alltaf. Ég er samt mjög bjartsýnn á góða veiði fyrri hluta sumars og byggi það á því að í fyrra voru sterkar smálaxagöngur og þeim fylgja gjarnan sterkar stórlaxagöngur árið eftir og stórlaxinn gengur snemma upp í árnar. Það er ekki á vísan að róa með smálaxinn en ef hann skilar sér í sæmilega góðu magni þá verður þetta svakalega gott sumar."

Á von á svakalegu stórlaxasumri

Árni Baldursson, eigandi Lax-á, sem hefur verið með Blöndu á leigu um langt árabil, segir að þrátt fyrir að Norðurá opnu nú degi fyrr ætli hann að halda sig við 5. júní.

„Blanda er svo skrítinn að fiskurinn sem veiðist í opnuninni kemur mjög oft nóttina áður, segir Árni. „Í fyrra sást ekki einn einasti lax í ánni dagana fyrir opnun en um morguninn var hann bara mættur."
Árni segir að sala veiðileyfa hafi gengið mjög vel og líkt og Einar segist hann búast við góðri opnun.

„Þetta er hrikalega spennandi og ég á von á svakalegu stórlaxasumri. Ég held að þetta byrji með miklum hvelli.  Ég spái bestu opnun í langan tíma. Ég er handviss um að það veiðist 20 til 30 laxar í hvorri á fyrsta daginn. Um framhaldið er síðan erfitt að spá því maður getur aldrei sagt til um smálaxinn."

Árni segist sjálfur ætla að opna Blöndu að þessu sinni og að með í för verði vanir veiðimenn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Laxveiði  • Stangaveiði