*

Bílar 4. febrúar 2019

Opnar dyrnar sjálfkrafa

Jaguar Land Rover hefur þróað tækni sem opnar bílhurðina fyrir ökumanni.

Róbert Róbertsson

Jaguar Land Rover hefur þróað tækni sem opnar bílhurðina fyrir ökumanni sem getur valið um hvort hún opnist þegar hann nálgast bílinn eða þegar hann styður á hnapp á fjarstýringunni. Verið er að prófa frumgerð tækninnar í Range Rover Sport þessa dagana.

Sjálfvirki dyrabúnaðurinn styðst við samvirkni milli hreyfiskynjara á bílnum og lyklalausu fjarstýringarinnar til að bera kennsl á ökumanninn þegar hann nálgast bílinn. Ökumaðurinn lokar síðan hurðinni með því að styðja á hnapp fyrir ofan framrúðuna eða með því að styðja á miðlægan snertiskjáinn sem gerir einnig kleift að opna og loka öðrum hurðum bílsins.

Getur nýst hreyfihömluðum einkar vel

Búnaðurinn var sérstaklega hannaður með þarfir fatlaðra í huga sem nota bíl sem sinn aðal samgöngumáta, en kannanir sýna að þriðjungur þeirra segist eiga í erfiðleikum með að fara inn og út úr bílnum sínum. Að auki getur tæknin nýst þeim sem halda á þyngri farangri og þurfa þá ekki að bera hann með annarri hendi eða leggja hann frá sér til að opna bílinn. Á reynslubílnum eru sérstakir skynjarar í ökumannshurðinni sem kemur í veg fyrir að hún rekist í nálæga hluti, t.d. bíl í næsta stæði, þegar dyrnar opnast. Einnig er hægt að stilla búnaðinn þannig að dyrnar lokist sjálfkrafa og læsist þegar ökumaðurinn gengur í átt frá bílnum. Sé búnaðurinn ekki stilltur á sjálfvirka virkni er hægt að styðja á hnapp í hurðarfalsinu og lokast þá hurðin á eftir ökumanni.

Fyrrum sérsveitamaður prófar búnaðinn

Sá sem hefur búnaðinn til prófunar er Mark Ormrod, fyrrverandi sérsveitarmaður í breska landhernum sem missti þrjá útlimi í stríðinu í Afganastan. Ormrod er gullverðlaunahafi í Invictus, alþjóðlegri íþróttakeppni fyrrverandi hermanna sem slasast hafa eða veikst í herþjónustu. Harry Bretaprins er upphafsmaður Invictus leikanna þar sem hermennirnir fyrrverandi keppa í allskyns íþróttagreinum. Leikarnir eru nefndir eftir latneska orðinu Invictus sem þýðir „ósigrandi".

„Þessi búnaður hefur nýst mér afar vel og myndi svo sannarlega nýtast fleirum sem eiga erfitt með að fara inn og út úr bílnum. Að opna og loka dyrum virðist svo lítið mál en stundum eru það einmitt smáatriðin sem flestir framkvæma auðveldlega og án umhugsunar mörgum sinnum á dag sem geta reynst fötluðum verulegt átak," segir Mark Ormrod um reynslu sína af tækninni sem hann hefur haft til reynslunotkunar um nokkurt skeið. Búnaðinn var reyndur í sex mánuði í tæknimiðstöð Jaguar Land Rover áður en honum var komið fyrir í nýjum bíl af gerðinni Range Rover Sport.