*

Tíska og hönnun 12. júní 2014

Orðabók fasteignasalans

Hástemmdar lýsingar þurfa stundum nánari skoðun þegar fasteignaauglýsingar eru annars vegar.

Það getur reynst erfitt fyrir venjulegt fólk að finna leiðina í gegnum fasteignafrumskóginn þegar það reynir að finna sér íbúð á markaðnum. Viðskiptablaðið safnaði saman nokkrum raunverulegum dæmum um lýsingar íslenskra fasteignasala á eignum á undanförnum mánuðum sem túlka má með ýmsum hætti. Þess má geta að fyrir tíu árum var lögum um sölu fasteigna breytt og var ákvæði bætt við þar sem segir að fasteignasalar skuli gæta hófs í lýsingum á fasteignum.

Var frjálslegra áður

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir fasteignaauglýsingar hafa verið frjálslegri á árum áður fyrir setningu laganna. „Lagabreyting kom í kjölfar þess að það höfðu kvartanir borist um að það væri verið að lýsa eignum með talsvert yfirdrifnum hætti. Þannig að þetta kom að gefnu tilefni,“ segir Grétar. Hann segir erfitt að taka á málum þar sem lýsingar eru hástemmdar sérstaklega í ljósi þess að upplifun fólks er mismunandi. „Þetta er eitthvað sem hver og einn verður að meta hvað honum finnst fallegt. Það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt. Þetta er rosalega vandmeðfarið. En lögunum var breytt að gefnu tilefni og þetta pirraði fólk. Sérstaklega þegar þetta voru sláandi lýsingar,“ segir Grétar sem segir félagið hafa einstaka sinnum tekið á svona málum. Hann segir félagið reyna að koma skilaboðum áfram til fasteignasala um að gæfa hófs í lýsingum.

Leiðréttir Fasteignafrasar

Snotur eign: Hér dó fagurfræðin og allt sem heiti praktískt skipulag.

Sjarmerandi upprunaleg eldhúsinnrétting: Gömul eldhúsinnrétting sem er í henglum. Getur búist við því að hér sé í besta falli hægt að loka helmingnum af skápunum.

Stutt í alla þjónustu: Íbúðin er við hliðina á mislægum gatnamótum eða risastóru bílaplani og bensínstöð.

Í rólegu hverfi: Hér gerist ekkert. Fólk dregur fyrir gluggana klukkan sjö á kvöldin. Þetta er endastöð lífs þíns. 

Sjón er sögu ríkari: Við ætlum ekki að birta fleiri myndir af íbúðinni því þá kemur enginn að skoða hjallinn.

Nánar er fjallað um málið í Eftir Vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.

Stikkorð: Fasteignir  • Eftir vinnu