*

Sport & peningar 14. janúar 2017

Orkuboltarnir frá Leipzig

Öskubuskuævintýri þýska knattspyrnufélagsins RB Leipzig hefur verið með ólíkindum.

Alexander Freyr Einarsso

Fæstir bjuggust við því að andstæð­ingur Þýskalandsmeistara Bayern München í síðasta leik fyrir jólafrí gæti endað fyrir ofan liðið um áramótin.

Nýliðar RB Leipzig höfðu tryggt sér sæti í Bundesligunni í fyrsta skiptið í sögunni fyrir þetta tímabil en voru öllum að óvörum jafnir risum Bayern á toppnum með 36 stig fyrir viðureign lið­ anna þann 21. desember. Þrátt fyrir að hafa tapað 3-0 gegn Bayern í lokaleik ársins 2016 er ljóst að RB Leipzig á enn raunhæfan möguleika á Þýskalandsmeistaratitlinum, eitthvað sem enginn hefði trúað fyrir tímabilið.

Uppgangur RB Leipzig hefur verið hreint út sagt ótrúlegur. Saga félagsins nær einungis til ársins 2009 þegar orkudrykkjaframleiðandinn Red Bull keypti félag í 5. deild Þýskalands að nafni SSV Markranstädt með þann tilgang að gera liðið að úrvalsdeildarliði á átta árum. Nafninu var breytt í RB Leipzig, en RB stendur að vísu ekki fyrir Red Bull heldur RasenBallsport. Ástæðan er sú að þýsk knattspyrnuyfirvöld banna að nafn styrktaraðila sé hluti af nafni félagsins, en ekki var mikið mál að komast framhjá því. Í kjölfarið rauk liðið upp hverja deildina á fætur annarri á örfáum árum og 8. maí 2016 tryggði RB Leipzig sér sæti í Bundesligunni með 2-0 sigri gegn Karlsruher. Markmiðinu var náð á einungis sjö árum.

Gengi félagsins í deild þeirra bestu hefur verið með ólíkindum. Þrátt fyrir að vera ekki skipað stórstjörnum hefur liðið unnið hvern leikinn á fætur öðrum og er á toppi deildarinnar um áramótin. Sumir hafa líkt ótrúlegum uppgangi liðsins við Öskubuskuævintýri ensku meistaranna í Leicester. Aðrir eru þó talsvert minna hrifnir og segja RB Leipzig vera sálarlaust félag keyrt áfram af endalausum peningum frá eigandanum Red Bull.

„Hataðasta lið Þýskalands“

Orkudrykkjarisinn Red Bull hefur í mörg ár rekið íþróttafélög. Bandaríska knattspyrnufélagið New York Red Bulls er líklega þekktasta dæmið en einnig má nefna Red Bull Salzburg, langsterkasta félag Austurríkis undanfarin ár. Að auki á Red Bull tvö kappaksturslið í Formúlu 1 kappakstrinum og fjölda liða í öðrum akstursgreinum. Í raun má segja að megintilgangur Red Bull með eign sinni í öllum þessum íþróttafélögum sé að auglýsa orkudrykki sína, fyrst og fremst til ungra karlmanna. Með því að hafa vörumerkið sífellt í umræðunni eru neytendur reglulega minntir á drykkinn.

Tilgangur RB Leipzig og saga þess er einmitt ástæðan fyrir því að liðið er gjarna kallað „hataðasta lið Þýskalands“. Þó svo að sumir telji tímabært að áratugalöng yfirráð Bayern München í deildinni taki enda þykir mörgum RB Leipzig traðka á öllu sem þýsk knattspyrna stendur fyrir. Hefð­ in er engin, erfitt er fyrir stuðningsmenn að samsvara sig félaginu og þeir hafa ekkert um rekstur þess að segja, ólíkt því sem gerist hjá langflestum knattspyrnufélögum Þýskalands.

RB Leipzig kemst framhjá reglu um vald stuðningsmanna, svokallaðri „50+1“ reglu, með því að rukka þá um 1.000 evrur fyrir að gerast meðlimir að félaginu, meira en tífalt hærri upphæð en Bayern München rukkar. Enn hærri upphæð þarf til að fá atkvæðisrétt, en einungis 17 meðlimir eru með atkvæð­ isrétt þegar kemur að ákvörð­ unum félagsins og eru þeir allir tengdir drykkjaframleiðandanum Red Bull. Á meðan er t.d. Borussia Dortmund með 139.000 skráða meðlimi sem geta beitt neitunarvaldi þegar kemur að ákvörðunum á borð við hækkun miðaverðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Þýskaland  • fótbolti  • RB Leipzig