*

Heilsa 2. desember 2013

Orkudrykkir hættulegir hjartastarfseminni

Orkudrykkir geta haft áhrif á hjartslátt þess sem neytir drykkjarins, samkvæmt nýrri rannsókn.

Vísindamenn vara við því að neysla á orkudrykkjum geti haft áhrif á starfsemi hjartans. Þetta kemur fram á vef BBC. 

Hópur rannsakenda frá Háskólanum í Bonn í Þýskalandi fylgdist með hjartastarfsemi hjá 17 manns einni klukkustund eftir að þeir drukku orkudrykk. Niðurstöðurnar voru þær að starfsemin var undir meira álagi eftir neysluna. Í kjölfarið var gefin út viðvörun til barna og þeirra sem hafa undirliggjandi heilsuvandamál að forðast alla orkudrykki.  

Dr. Jonas Dorner er einn af þeim sem fór fyrir rannsókninni en hann segir að þar til nú hafi ekki verið fullvitað hvaða áhrif orkudrykkir hefðu á hjartað. Magnið af koffeini er þrisvar sinnum meira í orkudrykk en í kaffi eða kóladrykk og aukaverkun af of miklu koffeini er of hraður hjartsláttur, of hár blóðþrýstingur og í verstu tilfellum, flog eða andlát.

Stikkorð: orkudrykkir