*

Veiði 22. september 2016

Orri í frægðarhöll veiðimanna

Orri Vigfússon er nú kominn í hóp með Ernest Hemingway, Wulff-hjónunum og fleiri frægum veiðimönnum.

Trausti Hafliðason

Orri Vigfússon, sem í tæpa þrjá áratugi hefur barist fyrir verndun Norður-Atlantshafslaxins, var í síðustu viku tekinn inn í frægðarhöll (e. Hall of Fame) Alþjóðasamtaka sportfiskveiðimanna (e. International Game Fish Associaton - IGFA). Var þetta gert við hátíðlega athöfn í Flórída í Bandaríkjunum í síðustu viku.

IGFA var stofnað árið 1939. Samtökin, sem eru rekin í góðgerðarskyni, hafa það að meginmarkmiði að vernda sportfiska og uppfræða stangaveiðimenn um ábyrga og hófsama veiðimennsku. Árið 1998 ákváðu forsvarsmenn samtakanna að stofna frægðarhöll í þeim tilgangi að veita þeim einstaklingum, sem hafa skarað fram úr í stangveiðiheiminum viðurkenningu. Í frægðarhöllinni eru veiðimenn, vísindamenn og fólk á ýmsum öðrum starfssviðum, sem á það sameiginlegt að hafa helgað stóran hluta af ævi sinni stangaveiði og eða verndun sportfiska. Í síðustu viku voru auk Orra, fjórir aðrir teknir inn í frægðarhöllina, sem þýðir að alls hafa 115 manns hlotið þessa viðurkenningu samtakanna.

Hemingway og Wulff

Íslenskir veiðimenn kannast eflaust við mörg þeirra nafna sem eru í frægðarhöll IGFA. Má til dæmis nefna rithöfundinn og stangaveiðimanninn sáluga Ernest Hemingway, sem strax við stofnun samtakanna tók þátt í félagsstarfinu. Einnig má nefna Bernard „Lefty" Kreh, Zane Grey, Gary Loomis, Lee og Joan Wulff, Mary Orvis Marbury og Charles Ritz. Þess má geta að Joan Wulff tók í mörg ár þátt í Bandarísku kastkeppninni, þar sem hún keppti meðal annars við karla og hafði yfirleitt betur. Frá árinu 1943 til 1960 vann hún keppnina — kastaði flugunni lengra en allir aðrir.

Orri var tekinn í inn í frægðarhöllina vegna þess mikla verndarstarfs, sem hann hefur unnið í þágu Norður-Atlantslaxins. Árið 1989 stofnaði hann Verndarsjóð villtra laxastofna eða North Atlantic Salmon Fund (NASF).

„Ég byrjaði á þessu af því að ég er ástríðufullur veiðimaður,“ segir Orri. „Norður-Atlantshafslaxinn hefur átt undir högg að sækja og mér er umhugað um að hann fái að vaxa og dafna. Það er nú bara svo einfalt.“

Orri segir að þegar hann hafi byrjað hafi hann hugsað með sér að þetta tæki svona tvö ár en síðan eru liðin 27 ár. Vegna starfsins hefur hann ferðast út um allan heim og hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Tímaritið Time valdi Orra eina af hetjum Evrópu árið 2004 (Time Magazine European Hero) og þremur árum seinna hlaut hann umhverfisverðlaun Goldman (Goldman Environmental Prize).

„Það má eiginlega segja að ég hafi þokað mér hægt og hægt út í þetta,“ segir Orri. „Þetta snýst um að gera viðskiptaverndarsamninga um að kaupa réttindi í Atlantshafinu þannig að menn hætti að veiða lax í sjó. Við höfum stofnað dóttursjóði víða um lönd sem við borgum í. Þessir sjóðir eru notaðir til þess að aðstoða þá sjómenn sem áður veiddu lax við að gera eitthvað annað.“

Byggir á sjálfbærni í óspilltri náttúru

Verndarsjóður villtra laxastofna hefur í gegnum árin aðallega beint sjónum sínum að netaveiðum á laxi en síðustu ár hefur sjóðurinn beint spjótum sínum í auknum mæli að virkjanaframkvæmdum og laxeldisáformum.  Þegar Orri tók á móti viðurkenningu IGFA hélt hann stutta ræðu, þar sem kom meðal annars inn á þetta. Hann benti á að laxveiði á Íslandi væri stór atvinnugrein. Grein, sem velti árlega 15 til 20 milljörðum og skapaði um 1.200 ársverk.

Þessi atvinnugrein byggir á sjálfbærni í hreinni og óspilltri náttúru," sagði Orri. „Hundruð milljóna króna á ári kostar að verja þessa grein fyrir ágangi manna sem með stundarhagsmuni í huga vilja fórna þessum verðmætum með vanhugsuðum áformum um virkjanagerð og aðrar framkvæmdir sem hafa í för með sér stórfellda röskun á vistkerfi landsins  - að ekki sé talað um risavaxið laxeldi í sjókvíum en það gæti haft afdrifaríkar og óafturkræfar afleiðingar fyrir íslenska laxastofna." 

Hér tekur Orri við viðurkenningu frá Rob Kramer, forseta IGFA. Á hinni myndinni sem fylgir fréttinni sést Orri með tvíhenduna í Laxá í Aðaldal, þar sem hann hefur veitt í ríflega hálfa öld.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.            

Stikkorð: Laxveiði  • Orri Vigfússon