*

Bílar 13. nóvember 2015

Öryggið í hjólbörðunum

Sturla Pétursson, framkvæmdastjóri Gúmmívinnustofunnar, fer yfir dekkjamálin fyrir veturinn.

Öryggi bílsins byggist á góðum hjólbörð­ um. Það er mikilvægt að huga reglulega að dekkjunum og skoða mynsturdýpt, loftþrýsting og almennt ástand þeirra. Nú hefur tekið gildi ný reglugerð sem segir að mynsturdýpt dekkja verði að vera að minnsta kosti 3 millimetrar yfir veturinn, þ.e. frá 1. nóvember til 14. apríl. Yfir sumartímann á dýptin að vera lágmark 1,5 millimetrar,” segir Sturla.

Nokkrir dagar á ári hér á höfuðborgarsvæðinu

,,Við höfum séð mikið af harð­ skelja- og harðkornadekkjum á undanförnum árum. Þau hafa verið að koma inn í staðinn fyrir nagladekkin sem hafa verið á undanhaldi síðustu ár. Nagladekkin komu reyndar svolítið aftur inn í fyrravetur þar sem það var óvenjuslæmur vetur. Það hafði áhrif. Annars eru það þeir sem keyra mikið úti á landi sem velja nagladekkin. Þar er meiri þörf á að vera á nagladekkjum. Þau hafa meira grip og nýtast sérlega vel á þeim stöðum þar sem er mikill snjór og lítið rutt. Nagladekk eru auðvitað best við ákveðnar aðstæður eins og t.d. þegar er svokallað ,,black ice“ þ.e. þegar er rigning og það frystir að kvöldi og það myndast lúmsk hálka. Þetta eru kannski nokkrir dagar á ári hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nagladekkin nýtast betur en önnur dekk.“

Gott  grip í flestum vetrardekkjum

„En það er komið mjög gott grip í flest vetrardekkin eða heilsársdekkin eins og má kalla þau, sérstaklega frá þessum bestu framleiðendum eins og Michelin, Goodyear, Toyo og Hankook. Það koma ný munstur á þriggja ára fresti og dekkin eru alltaf að verða betri og betri. Þetta er bara eins og með bílana. Það koma ný módel sem eru uppfærð og betri en þau eldri,“ segir Sturla. „Við erum með dekk frá þessum helstu og bestu framleið­ endum eins og Michelin, Goodyear, Toyo og Hankook.“

 Viðtalið við Sturlu má lesa í Bílablaði Viðskiptablaðsins sem kom út þann 24. september.