*

Sport & peningar 14. maí 2013

Óska eftir 45 milljóna króna aðstoð frá Ísafjarðarbæ

Knattspyrnufélagið BÍ/Bolungarvík segist þurfa að fara í 64 milljóna króna framkvæmdir á Torfnesvelli á næstu árum.

Forsvarsmenn knattspyrnufélagsins BÍ/Bolungarvíkur hafa farið þess á leit við Ísafjarðarbæ að fram fari viðræður um 45 milljóna króna fjárfestingu á Torfnesvelli, að því segir á vef Bæjarins besta. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar eru 64 milljónir króna og telur félagið sig geta brúað mismuninn með stuðningi fyrirtækja, sjálfboðavinnu og öðrum óformlegum styrkjum.

Tillaga forsvarsmanna BÍ/Bolungarvíkur hljóðar upp á að sveitarfélagið leggi fimm milljónir króna í verkið á þessu ári, 15 milljónir á næsta ári og árið 2015 og 10 milljónir króna árið 2016.

Mest liggur á að reisa nýja tveggja metra háa girðingu umhverfis grasvöllinn og fjögurra metra háar girðingar aftan við mörkin. Girðingin sem fyrir er, hefur látið á sjá og stenst ekki það álag sem hún þarf að þola enda að verða 30 ára gömul. Með tilkomu nýrrar girðingar verður mun auðveldara að varna áhorfendum aðgengi að vellinum og tryggja öryggi leikmanna.

Æskilegt er að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir 1. júní þar sem keppnisleyfi liðsins rennur þá út og gera þarf viðeigandi ráðstafanir til að völlurinn uppfylli þau skilyrði sem KSÍ setur fyrir knattspyrnuvelli á Íslandsmótinu í 1. deild karla.