*

Sport & peningar 19. mars 2014

Öskrað eftir breytingum

Krafan um að David Moyes verði rekinn frá Manchester eykst með degi hverjum.

„Mér líst Illa á stöðuna,“ segir Sigurður Hlöðversson, stjórnarmaður í  íslenska Manchester-aðdáendaklúbbnum, aðspurður um stöðu Manchester United. Liðið hefur tapað hverjum leiknum á fætur öðrum og er nánast orðið aðhlátursefni. David Moyes hefur stýrt liðinu frá því að Alex Ferguson lét af störfum í sumar eftir 26 ára starf.

Sigurður, eða Siggi Hlö, eins og hann er jafnan kallaður segist ekki vilja útiloka Moyes alveg strax. „Ég er aðeins að bíða eftir leik kvöldsins,“ segir Siggi. Þá spilar liðið seinni leik á móti Ólympiakos í sextán liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu. Ólympiakos vann fyrri leikinn 2-0. Siggi segir að það skipti máli hvað gerist í kvöld. „En það er orðið erfitt að styðja við bakið á honum þegar þetta er orðið svona ömurlegt,“ segir Siggi. 

Siggi segir að það sé vart hægt að fara inn á spjallsíður sem snúast um Manchester United án þess að hugsanlegur brottrekstur Moyes beri á góma. „Það er öskrað eftir breytingum ,“ segir Siggi en bætir því við að hann vilji líka sjá að öskrað sé á leikmennina sjálfa. „Mér finnst þeir ekkert skána þrátt fyrir mótlætið. Það er enginn sem stígur upp og dregur vagninn,“ segir Siggi.

Siggi segir að ef Moyes fer þá sé þjálfari Dortmund álitlegur kostur sem eftirmaður hans.