*

Veiði 16. júní 2014

Össur og tröllin í Þingvallavatni

Össur Skarphéðinsson segist vera tilfinningaríkur stjórnmálamaður.

Urriðinn í Þingvallavatni, sem forðum átti mikilvægustu óðul sín í Efra-Sogi, er meðal langmerkustu urriðastofna heims, að sögn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar og líffræðings. Össur bendir á í grein um Þingvallaurriðann í veiðiblaði Viðskiptablaðsins, að lífsferill urrðins sé mjög sérstakur og hann stórvaxnari en nokkur annar urriðastofn. Meðalþyngd urriðans er hærri en laxanna í Laxá í Aðaldal, sem er þó fræg stórlaxaá.

Össur segir hafa staðið tæpt hjá Þingvallaurriðanum þegar virkjað var í Soginu. Hann segist hafa glaðst þegar samþykkt var á Alþingi við þinglok að ríkisstjórninni verði falið að tryggja að Landsvirkjun gerði fiskveg úr Þingvallavatni niður á forn óðul hans í Efra-Sogi.

„Það eru sannarlega kaflaskil. Tilfinningaríkir stjórnmálamenn einsog ég gleðjast sem betur fer oft. Mitt litla hjarta gladdist sannarlega þegar Alþingi samþykkti tillöguna um fiskveginn í Efra-Sog. Þá voru næstum 20 ár frá því ég ræddi hugmyndina fyrst á Alþingi,“ skrifar Össur.

Hann heldur áfram um urriðann:

„Árið 1959 var skorið með einu hnífsbragði á lífsþráð stærsta stofnsins í vatninu þegar Efra-Sogið var virkjað og öllu vatninu veitt um jarðgöng niður í Steingrímsstöð. Ómetanlegir hrygningarstaðir urriðans úti fyrir mynni árinnar eyðilögðust svo þegar bráðabirgðastífla brast meðan stóð á gerð virkjunarinnar. Í kjölfarið lenti urriðinn á tæpasta vaði með tilvist sína.“

Hann heldur áfram:

„Um 1990 gerðu menn sér grein fyrir því að stofninn var í háska staddur. Upp úr því hófst barátta fyrir aðgerðum til að efla og styrkja urriðann. Árið 1992 tók ég málið upp í fyrsta skipti af mörgum á Alþingi. Í framhaldinu skrifaði ég bókina Urriðadans, sem kom út 1996, og var herhvöt til allra sem vildu ljá framtíð hans stuðning. Ég óttaðist þá að urriðans í Þingvallavatni biði beisklegur og ótímabær aldurtili – og vildi leggja mitt af mörkum til að vekja menn til vitundar um háskalega stöðu hans. Þegar ég les mína eigin bók næstum tveimur áratugum síðar sé ég að hún var öðrum þræði líka löng minningargrein. Í formálanum kveð ég minn gamla vin næstum því formlega. Svo svartsýnn var ég þá á framtíð hans.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Veiði sem fylgdi síðasta Viðskiptablaði. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.