*

Hitt og þetta 20. júlí 2005

Óstöðug fjármálasaga Manchester United

Þrátt fyrir að Manchester United sé ríkasta fótboltalið í heiminum í dag, hefur það þurft að þola miklar sveiflur í gegnum tíðina. Af mörgum ástæðum hefur liðinu verið bjargað frá gjaldþroti eða öðrum hörmungum á síðustu stundu af einhverjum "stórkörlum", að því er fram kemur á heimasíðu BBC.

Í dag er liðið í eigu bandaríska milljónamæringsins Malcolm Glazer en hann er ekki fyrsti auðmaðurinn sem hefur átt liðið fullu. Í raun hafa þessi fjórtán ár sem félagið var í eigu almennra hluthafa verið hálfgerð undantekning í sögu félagsins.

Það mætti segja að fyrsti bjargvætturinn hafi verið hinn efnaði bjórframleiðandi frá Manchester, John Henry Davis, en hann bjargaði liðinu, sem þá hét Newton Health club, frá glötun árið 1902. Aðdragandi þeirrar yfirtöku var hins vegar frekar sérstakur.

"Liðið var í fjárhagsvandræðum og ákvað því að halda góðgerðarbasar til að safna peningum," segir Steve Kelly, höfundur bókarinnar Back Page United. "Eitt af því sem við notuðum til að draga fólk að var St. Bernards hundur, sem strauk einn daginn eftir lokun. Hundurinn fannst aftur, en sá fundur hundsins leiddi til fundar á milli fyrirliðans Harry Stafford og Davis, sem setti saman hóp af fjárfestum."

Saman náðu þeir að safna tvö þúsund pundum, sem bjargaði félaginu frá gjaldþroti. Þeir borguðu upp skuldir og nýtt félag, Manchester United, var stofnað í apríl 1902.

"Moneybags United"

Davis, sem varð formaður félagsins, eyddi miklum peningum í að byggja upp Old Trafford, en eftir að völlurinn var tilbúinn árið 1910 varð hann mikilvægasti leikvangur Englands. Á meðan Davis stjórnaði félaginu fékk það á sig viðurnefnið "Moneybags United" og fékk áminningu bæði frá úrvalsdeildinni og FA árið 1910 fyrir villandi fjárhagslegar yfirlýsingar. Davis dó árið 1927 og fjórum árum síðar var félagið aftur komið í fjárhagsvandræði.

Ástandið varð svo mjög slæmt um jólin árið 1931, þegar félagið var komið með 30.000 punda skuld og bankinn stöðvaði launagreiðslur þess. "Þó að fólk viti ekki af því, þá hefur félagið átt sínar fjárhagslegu sveiflur í gegnum tíðina," segir Kelly. "Það hefur átt stormasama fjármálasögu -- en hins vegar er félagið stórt og hefur átt auðvelt með að laða að fjárfesta."

Á þessum tímapunkti steig fram annar auðjöfur -- í þetta skiptið James W. Gibson, sem varð ríkur af framleiðslu hermannabúninga. Hann greiddi upp ógreidd laun og þann 1. janúar 1932 tók hann við formannsstöðu félagsins -- sem hann gegndi næstu tvo áratugi. Gibon jók hlutafé um 20.000 pund, auk þess sem hann gerði Matt Busby að framkvæmdastjóra félagsins að seinni heimsstyrjöldinni lokinni.

Sannfærandi kaupandi

Miklar skemmdir urðu á Old Trafford í sprengingum Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni og þurfti að endurbyggja leikvanginn árið 1949.

Gibson var við stjórnvölinn, sem stærsti hluthafi, þangað til hann lést í byrjun 1951/52 leiktíðarinnar. Sonur hans, Alan, erfði hlut föður síns en Harold Hardman var skipaður formaður félagsins.

Liðinu gekk vel í heilan áratug, eða fram að Munchen flugslysinu árið 1958, þar sem stór hluti liðsins fórst. Þá tók slátrarinn Louis Edwards við sem leikstjórnandi og byggði hann upp nýtt lið.

"Hann gekk á milli fólks sem hann vissi að ætti hlut í liðinu og keypti hann af því," sagði Kelly. "Hann var mjög góður í að sannfæra fólk um að selja hluti sína í félaginu og að lokum tók hann yfir liðið."

Hlutafé gefið út

Þegar Hardman dó, árið 1964, tók Edwards við formannsstöðunni -- sex árum eftir að hann hafði keypt liðið. Edwards skipulagði frekari uppbyggingu á Old Trafford og jók hlutafé félagsins um 1 milljón punda. Hluthöfum fjölgaði úr 90 í 2.000. Það gerði Busby kleift að kaupa leikmenn, en á sama tíma var slakað á reglum um leikmannakaup en það hafði þær afleiðingar að laun leikmanna hækkuðu. Edward lést árið 1980 og sonur hans, Martin, tók við stjórn.

Það má segja að liðið hafi ekki spilað vel á sjöunda og áttunda áratugnum. Hins vegar var mætingin á heimaleiki á hverri leiktíð góð. Mesta áhorf var á leiki 17 leiktíða af 20 frá árinu 1972 og má segja að það hafi bjargað fjárhagsstöðu liðsins á þessum árum.

Miðsheppnuð tilboð

Árið 1984 gerði Robert Maxwell 10 milljón punda tilboð í félagið, en því var hafnað.

Fimm árum síðar var fasteignaeigandinn Michael Knighton nálagt yfirtöku en einn af bönkunum sem stóðu á bak við kaupin, Citicorp, dró sig til baka.

Í maí 1991 fór félagið á hlutafjármarkað, með 2.597.404 hluti sem seldust á 3,85 pund hver.

Martin Edwards var gagnrýndur fyrir þann 93 milljón punda hagnað sem hann fékk fyrir sölu á sínum hlutum í félaginu, áður en hann lét af stöðu sinni sem framkvæmdastjóri þess árið 2000.

"Hann fékk mikla gagnrýni," segir Kelly. "En eitthvað þurfti að gera í ljósi breyttra reglna árið 1990, sem sögðu að áhorfendur þyrftu allir að sitja -- það kostaði sitt. Hins vegar er ókosturinn við að fara á almennan markað að það getur hver sem er keypt þig."

Það vakti hins vegar mikla athygli þegar tilboði BskyB var hafnað af bresku einokunar- og samrunanefndinni árið 1998.

Nú síðast hefur bandaríski auðmaðurinn Melcolm Glazer náð völdum á Old Trafford, en hann er fyrsti auðmaðurinn sem kemur yfir hafið til að kaupa liðið.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is