*

Hitt og þetta 3. febrúar 2014

Óþarfi að segja brandara allan tímann

Logi Bergmann Eiðsson sjónvarpsstjarna er vinsæll veislustjóri. Hann segir mestu máli skipta að hafa röð og reglu í veislum.

Einn af reynslumeiri veislustjórum landsins er án efa sjónvarpsstjarnan Logi Bergmann Eiðsson. Hann segir starf veislustjóra vera krefjandi en líka mjög gefandi og skemmtilegt.

„Þetta er alltaf frekar skemmtilegt en maður man eftir slæmu hlutunum. Þetta hefur þó yfirleitt gengið vel og ég hef ekki oft lent í veseni. Ég lenti einhvern tímann í því, sem mér þótti skemmtilegt, að formaður skemmtinefndar hafði eiginlega ekkert sagt mér hvað ég ætti að gera og drapst svo ofan í súpuna sína. Ég var eiginlega alveg blankur eftir það því það voru að dúkka upp atriði sem voru plönuð en enginn hafði sagt mér frá. Það er eiginlega versta dæmið. Að vera kominn i eitthvað gigg og þú veist ekkert hvað er að gerast. Af því að sá sem skipulagði fór of geyst. Ég hef bara einu sinni lent í því,“ segir hann, spurður út í einhver eftirminnileg atriði úr veislum sem hann stýrði. Rétt er að láta það liggja á milli hluta hver stóð að þessari eftirminnilegu árshátíð.

Logi Bergmann segir margt skemmtilegt við starf veislustjórans „Maður er með fólki sem er að skemmta sér og í góðu skapi,“ segir hann. „Ég væri ekki að þessu nema þetta væri skemmtilegt,“ bætir hann við. Það sé aftur á móti mikil kúnst að sinna slíku starfi vel. „Góður veislustjóri hefur reglu á hlutunum,“ segir Logi. Það sé algjör óþarfi að segja brandara allan tímann. Meira máli skipti að passa upp á að veislan fari vel fram. „Það þarf að fá fólk til að brosa og hlæja smá en svo aðallega bara að passa upp á að fólk skemmti sér,“ segir hann.

Logi segir að það að stýra veislu krefjist ákveðins jafnvægis. „Þú mátt ekki keyra gestina út þannig að menn standi þreyttir upp frá borðunum. Þarna er fólk að skemmta sér með vinum sínum og það þarf líka að fá tækifæri til að tala saman,“ segir hann. Atriðin þurfi í rauninni ekki að vera svo mörg.

Viðtalið við Loga Bergmann Eiðsson birtist í blaðinu Ráðstefnur og fundir sem fylgdi Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 30. janúar. Þú getur nálgast blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð.