*

Veiði 27. febrúar 2015

Ótímabærar sögur af svanasöng

Velta Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) dróst saman um tæp 30% milli ára en rekstrarhagnaður margfaldaðist.

Trausti Hafliðason

„Það er mat stjórnenda að varanlegt jafnvægi hafi náðst í rekstri félagsins sem muni tryggja og treysta rekstrargrundvöll þess." Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi SVFR, sem kynntur var og samþykktur á aðalfundi félagsins um síðustu helgi. Í reikningnum kemur einnig fram að rekstur félagsins hafi gengið erfiðlega undanfarin ár og að stjórnendur hafi markvisst unnið að varanlegum endurbótum á grunnrekstri þess. Rekstraráætlanir næstu ára geri ráð fyrir „áframhaldandi viðsnúningi í rekstri".

„Árið 2014 fer í sögubækur Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Jákvæð afkoma eru orð sem ekki hafa heyrst á síðustu fimm aðalfundum," sagði Árni Friðleifsson, sem las á aðalfundinum upp skýrslu stjórnar.

„Við höfum heyrt frá samkeppnisaðilum síðustu ár að að svanasöngur félagsins væri yfirvofandi. Stjórn félagsins hefur alltaf haft þá trú að hægt hafi verið að breyta rekstri félagsins til hins betri eins og þessar tölur sýna nú."

Greitt upp á þremur árum

Fjárhagsstaða SVFR hefur batnað töluvert. Þannig skilaði félagið ríflega 18 milljóna króna hagnaði á síðasta rekstrarári samanborið við 14 milljóna tap árið 2013. Skuldirnar minnka úr tæpum 72 milljónum í 52 á milli ára.

Af 52 milljóna skuldum eru 19 milljónir króna langtímaskuldir og  33 skammtímaskuldir. Í ársreikningnum kemur fram að félagið hafi samið við viðskiptabanka sinn um fjármögnun og greiðsluáætlun skulda. Samkvæmt því samkomulagi er gert ráð fyrir að langtímaskuldirnar verði greiddar upp á þremur árum og að félagið geti endurnýjað skammtímafjármögnun á þriggja mánaða fremsti fyrir allt að 15 milljónir króna.

Stangaveiðifélagið hefur dregið saman seglin undanfarin ár og kemur það skýrt fram í ársreikningnum. Veltan dróst saman um tæp 30% milli áranna 2013 og 2014. Rekstrartekjurnar fóru þannig úr 468 milljónum króna í 330 milljónir. Að sama skapi hafa rekstrargjöld dregist verulega saman eða úr 483 milljónum árið 2013 í 313 milljónir í fyrra.

Þessar aðhaldsaðgerðir virðast hafa skilað þeim árangri að skuldir minnka, eins og áður sagði, og rekstrarhagnaður (EBITDA) margfaldast milli ára. Rekstrarhagnaðurinn (hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta) var neikvæður um 7 milljónir árið 2013 en jákvæður í fyrra upp á tæpar 25 milljónir. Bókfært virði eigna félagsins stendur nánast í stað milli ára en það er nú 39 milljónir en var 40 árið 2013.

70 milljóna afskriftir

Eigið fé félagsins er enn neikvætt þó staðan sé vissulega betri en hún var. Í fyrra var það neikvætt um 31 milljón en á síðasta ári jákvætt um 13. Ljóst er að ef reksturinn á þessu ári verður eitthvað í líkingu við það sem hann var á því síðasta verður eigið fé Stangaveiðifélagsins orðið jákvætt að ári liðnu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hins vegar ekki búist við eins miklum hagnaði á þessu ár og því síðasta og er langtímamarkmið stjórnarinnar að eigið fé verði orðið jákvætt innan þriggja ára.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að rekstur félagsins hafi verið einkar þungur eftir hrun. "Á árunum 2010 – 2012 var rekstrarafkoma félagsins jákvæð, en rekstrartap félagsins stafaði af stórum hluta af miklum afskriftum og niðurfærslu á viðskiptakröfum frá hrunárum. Þessi þrjú ár lætur nærri að félagið hafi afskrifað og fært niður viðskiptakröfur upp á 70 milljónir króna, að stærstum hluta var hér um að ræða viðskiptakröfur frá hrunárum, kröfur sem ekkert hald var í. Á síðasta ári og í ár eru afskriftir og niðurfærslur „eðlilegar“, eða 1.8% af rekstrartekjum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • SVFR  • Stangaveiði