*

Ferðalög 9. október 2013

Ótrúlegir hlutir í miðri eyðimörk Dubaí

Yfirvöld í Dubaí koma enn á óvart og halda áfram að byggja ótrúleg mannvirki, í miðri eyðimörkinni.

Ef marka má nýjustu mannvirkin í Dubaí þá er eins og yfirvöld hafi hugsað: Hvað er það fáránlegasta sem hægt er að byggja í eyðimörk? Og ákveðið síðan að slá til.

Í furstadæminu hefur nú verið gerður aldingarður en ekki bara venjulegur aldingarður því í honum eru um 45 milljón blóm. Garðurinn opnaði í febrúar og er sjö hektarar. Hann er staðsettur rétt fyrir utan borgina.

Í Dubaí er líka hægt að fara á skíði en í stærstu verslunarmiðstöðinni í Dubaí er 25 þúsund fermetra stórt skíðasvæði sem var opnað árið 2006. Þar er nýlega búið að koma fyrir tuttugu mörgæsum. Mörgæsirnar rölta um skíðasvæðið gestum til mikillar gleði. Á svæðinu eru fimm skíðabrautir og stóla- og toglyfta. Skíðasvæðinu er lýst sem stórri frystikistu með einnar gráðu frosti á daginn og sex gráðu frosti á nóttunni.

Í grein á CNN má lesa nánar um þessi, og fleiri ótrúleg mannvirki í miðri eyðimörk Dubaí.

 

 

 

Stikkorð: Dubai  • blóm  • skíði