*

Sport & peningar 14. september 2021

Óvæntur sigur gæti orðið arðbær

Sigur hinnar átján ára Emmu Raducanu á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis opnar á mikla tekjumöguleika.

Breska táningsstjarnan Emma Raducanu hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn eftir að hafa óvænt landað sigri á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis. Sigurinn mun ekki aðeins skjóta henni upp heimslistann yfir öflugustu kventennisspilara heimsins, heldur má einnig gera ráð fyrir að fjárhagslegur ávinningur sigursins verði verulegur, að því er BBC greinir frá.

Raducanu tryggði sér 2,5 milljónir dala í vinninsfé með sigrinum óvænta, en fram til þessa hafði hún samtals aflað sér 303 þúsund dali í verðlaunafé á ferlinum. Sigurinn gæti þó aflað henni margar milljónir dala til viðbótar í formi samstarfssamninga við hin ýmsu fyrirtæki og vörumerki.

Í heimi kvennaíþrótta virðast mestu peningarnir vera til staðar í tennis og endurspeglast það greinilega í þeirri staðreynd að níu efstu konur á lista Forbes tímaritsins yfir tekjuhæstu íþróttakonur heims eru tennisspilarar.

Í ljósi þessa og ungs aldurs Raducanu ætti hún að eiga góðan möguleika á að raða sér í eitt af toppsætum listans áður en langt um líður. Til þess að það gerist þarf hún þó að sjálfsögðu að halda áfram að standa sig vel á stærsta sviðinu og bera sigur úr býtum á stórmótum.