*

Sport & peningar 13. júní 2019

Óvenjuleg leið í átt að efsta sæti

Bandaríski kylfingurinn Brooks Koepka getur unnið sinn fimmta risamót á tveimur árum á Opna bandaríska um helgina.

Ástgeir Ólafsson

Brooks Koepka er nafn sem flestir ef ekki allir golfáhugamenn eru farnir að þekkja. Sigur hans á PGA meistaramótinu í síðasta mánuði var fjórði sigur hans á risamóti á ferlinum og sá þriðji á síðustu fimm risamótum en hann vann sinn fyrsta risatitil þegar hann sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2017. Það mót hefst einmitt í dag á Pepple Beach vellinum í Kaliforníu þar sem Koepka getur sigrað sitt fimmta risamót á tveimur árum. Það sem vekur athygli þegar ferill Koepka er skoðaður er að hann hefur nú sigrað á fleiri risamótum en á „hefðbundnum“ mótum á evrópsku og PGA mótaröðinni en hann á tvo sigra á PGA mótaröðinni og einn á þeirri evrópsku.

Það er óhætt að segja að Koepka hafi farið nokkuð óvenjulega leið fyrir Bandaríkjamann að verða einn besti kylfingur heims. Hann gerðist atvinnumaður sumarið 2012 eftir að hafa lokið háskólanámi við Florida State háskóla þar sem hann var hluti af golfliði skólans. Í stað þess að reyna við PGA mótaröðina í Bandaríkjunum fór Koepka hins vegar til Evrópu og hóf að leika á áskorendamótaröðinni sem er næstefsta mótaröðin í Evrópu. Hann sigraði á sínu fyrsta móti í september sama ár og ári seinna sigraði hann á þremur mótum til viðbótar sem tryggði honum fullan keppnisrétt á evrópsku mótaröðinni.

Andrúmloftið betra í Evrópu 

Árið 2014 vann hann svo sinn fyrsta sigur á mótaröðinni þegar hann sigraði á Turkish Airlines Open  og endaði árið í áttunda sæti á stigalista mótaraðarinnar og var auk þess valinn nýliði ársins. Koepka hefur lýst því að hann hafi aldrei haft jafn gaman að því að spila golf eins og í Evrópu. Þá lét hann einnig hafa eftir sér að andrúmsloftið á evrópsku mótaröðinni væri vinalegra þar sem leikmenn eiga það til að verja meira tíma saman fyrir utan golfvöllinn en í Bandaríkjunum.

Eftir árangur sinn í Evrópu hefði Koepka getað snúið aftur heim á PGA mótaröðina árið 2014 en það var ekki fyrr en ári seinna sem hann hélt aftur yfir Atlantshafið. Það tók hann ekki langan tíma að láta finna fyrir sér en hann sigraði á Phoenix Open árið 2015 sem var einungis hans þriðja mót sem fullgildur meðlimur á PGA mótaröðinni. Í gegnum feril hans í Bandaríkjunum hefur borið á því að Koepka hefur ekki fyllilega fengið þá virðingu sem hann á skilið.

Árið 2015 var hann ekki valinn í lið Bandaríkjanna í forsetabikarnum þrátt fyrir sigur og átta mót í top 10, áhorfendur hafa oft kallað hann Bruce og þá var hann kynntur sem Brooks „Cupkake“ á Phoenix-mótinu sem hann sigraði svo á. Það var jafnvel litið svo á eftir sigur hans á Opna bandaríska árið 2017 að Koepka hafi einungis verið réttur maður á réttum stað þrátt fyrir að hann hafi jafnvað mótsmet Rory Mcllroy yfir lægsta heildarskor.

Sá fyrsti í sögunni

Það má hins vegar segja að á síðustu tólf mánuðum hafi Koepka þaggað niður í öllum gagnrýnisröddum. Árið 2018 byrjaði þó ekki vel fyrir kappann en meiðsli á úlnlið héldu honum frá Mastersmótinu það ár sem er fyrsta risamót ársins. Í júní í fyrra sigraði hann á Opna bandaríska og varð þar með fyrsti kylfingurinn í tíu ár til að verja titil á risamóti frá því að Írinn Padraig Harrington náði þeim áfanga á Opna breska. Á dögunum sigraði hann svo á PGA meistaramótinu annað árið í röð og varð þar með fyrsti kylfingurinn í sögunni til að vinna sem ríkjandi sigurvegari á tveimur risamótum á sama tíma en hvorki Tiger Woods né Jack Nicklaus náðu þeim árangri. Þá er hann fyrsti kylfingurinn til að vinna síðustu þrjú risamót af fimm síðan Tiger Woods vann fjögur risamót í röð árin 2000- 2001.

Takist honum að sigra á Opna bandaríska sem hefst í dag getur hann orðið fyrsti kylfingurinn í 63 ár til þess að vinna sama risamótið þrjú ár í röð frá því að Ástralinn Peter Thompson vann Opna breska árin 1954-1956. Koepka hefur sagt að honum finnist auðveldara að sigra á risamótum en þeim „venjulegu“ þar sem á þeim séu færri kylfingar sem séu nógu hæfileikaríkir og andlega sterkir til þess að keppa við hann á þeim.

Þegar þetta er skrifað situr Koepka í efsta sæti heimslistans og ef árangur hans á síðustu misserum er ávísun á framtíðina má búast við því hann muni sitja þar í töluverðan tíma.

Nánar er fjallað um málið í Golf, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.