*

Hitt og þetta 29. nóvember 2013

Óvenjulegir og undarlegir jólasiðir

Í Úkraínu eru jólatré skreytt með köngulóarvefjum en jólasiðir eru víða frábrugðnir okkar hefðum.

Bjarni Ólafsson

Jólin eru haldin hátíðleg nær alls staðar í heiminum, jafnvel af fólki sem ekki er kristið og hefur því – tæknilega séð – enga sérstaka ástæðu til að fagna fæðingu Jesú Krists. Í gegnum tíðina hafa skapast ýmsar hefðir í þessum löndum, skrýtnar og skemmtilegar, undarlegar og óútskýranlegar. Reyndar kemst Ísland ósjaldan á lista erlendra miðla yfir undarlegar jólahefðir eins og jólaköttinn og jólasveinana þrettán, en hér verður farið yfir jólahefðir annars staðar í heiminum.

Krampus hræðir börn í Ölpunum

Líkt og jólakötturinn íslenski, sem notaður hefur verið til að hræða börn til hlýðni í aðdraganda jólanna, hafa foreldrar í kringum Alpana notað ferlíkið Krampus til að ná svipuðum árangri í uppeldinu. Krampus er eins konar antijólasveinn, sem lítur út eins og skelfileg blanda af villidýri og djöfli og fer hann um og safnar óþægum börnum í poka sem hann ber á bakinu. Hann tekur þau heim með sér og er óhætt að gera ráð fyrir því að hjá börnunum sé ekki um neina skemmtiferð að ræða. Á síðustu áratugum hefur Krampus þó látið sér nægja að gefa óþægum börnum kolamola. Í þessari hefð skiptir jólasveinninn, eða heilagur Nikulás, sér ekki af vondum krökkum.

Drumburinn laminn

Í Katalóníuhéraði á Spáni og í héruðum þar sem enn eimir af katalónskri menningu, s.s. í Andorra, Valencia og S-Frakklandi, virðist fólk vera saurmiðaðra í sínum jólahefðum en gerist og gengur annars staðar. Stór hluti af jólaskreytingum á þessum svæðum er uppstilling þar sem fæðing Frelsarans er sett á svið með dúkkum. Í sumum tilvikum eru heilu hverfin í Betlehem byggð upp. Það sem uppstillingarnar eiga hins vegar allar sameiginlegt er að auk vitringanna þriggja, Maríu, Jósefs og húsdýranna í fjárhúsinu er alltaf einhvers staðar að finna persónu sem heitir El Caganer, eða „kúkarinn“. Þetta er maður með rauða katalónska húfu sem situr á hækjum sér að losa sig við líkamlegan úrgang. Hefðin er gömul og er talin eiga rætur sínar að rekja allt til sautjándu aldar. Í sama dúr er önnur katalónsk hefð, Cagatió (kúkdrumburinn), sem er trjátrumbur á fjórum fótum sem málað hefur verið andlit á. Frá 8. september er drumbinum gefið að borða, hvernig sem það er framkvæmt, og á jóladag safnast fjölskyldan saman og lemur drumbinn með prikum þangað til hann kúkar nammi, hnetum og litlum gjöfum.

Nánar má lesa um undarlegar jólahefðir víða um heim í jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum. Áskrifendur geta nálgast eintök hér


Stikkorð: Jólasiðir  • Venjur  • Siðir  • Hefðir