*

Menning & listir 2. febrúar 2013

Pabbi stökk upp á svið um leið og hann mátti

Unnur Eggertsdóttir, sem syngur lagið Ég syng í Júróvisjón í kvöld, er dóttir forstjóra N1.

„Pabbi er rosalega ánægður með þetta allt saman. Hann stökk upp á svið um leið og hann mátti og tók mig í fangið en það var samt ekki búið að slökkva á myndavélunum svo hann sást greinilega,“ segir Unnur Eggertsdóttir hlæjandi en pabbi hennar er Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1. Unnur fer síðustu á svið með lagið „Ég syng“ í úrslitakeppninni á RÚV í kvöld.

Unnur hefur leikið Sollu stirðu síðustu þrjú árin og sýnt á yfir 300 skemmtunum. Hún hefur ferðast til Kína, Búlgaríu, Noregs og Svíþjóðar sem Solla: „Og á alla staði sem Flugfélag Íslands flýgur til innanlands og á alla staði sem rellur geta lent,“ segir Unnur sem viðurkennir að hún er frekar flughrædd en lætur hræðsluna þó ekki stoppa sig.

Unnur var ekki stressuð þegar hún steig á sviðið á laugardaginn:

„Ég var mjög stressuð alla vikuna og var komin með allt stressið úr kerfinu, mér leið ótrúlega vel og tilfinningin að koma fram sem ég sjálf var æðisleg.“