
Páfinn í Róm fékk í gær afhentan nýjan embættisbíl. Bíllinn er framleiddur af Mercedes Benz og byggir á M jeppanum. Unnið hefur verið að smíði bílsins síðustu níu mánuði, en mikil leynd hvílir yfir öllum slíkum verkefnum hjá bílaframleiðandanum.
Bíllinn tekur við af eldri gerð M bílsins en þar á undan var Páfa ekið um á G jeppanum .
Dieter Zetsche forstjóri Mercedes Benz afhenti Benedict XVI bíllinn en Páfagarður hefur notast við bíla frá þýska bílaframleiðandanum í um 80 ár. Bíllinn ber númeraplötuna SCV 1 (Stato della Città del Vaticano) eða Vatíkanið nr. 1.
Bíll páfa (e. popemobile) tók við af sérstökum stól sem páfi var áður borinn á sem nefndist á latínu"sedia gestoria". Notkun stólsins var endanlega hætt árið 1978.
Öryggisbúnaður bílsins er gríðarlega öflugur. Aftari hluti bílsins er í raun sérstakur klefi, sem er búinn súrefniskút ef ráðist yrði á páfann með efnavopnum. Gler eru skotheld og undirvagn er sérstyrktur og sprengjuheldur.
Benedict páfi XVI og Dieter Zetsche forstjóri Mercedes Benz við athöfnina í gær.
Aðgengi páfans að stóli sínum hefur verið bætt mikið frá eldri gerð.