*

Ferðalög & útivist 6. febrúar 2016

París er einstök borg

Ef þú vilt gera leigubílstjóra í París brjálaðann, þá ræðir þú um forsetann eða Uber.

Breiðstræti, fallegir garðar, torg og heillandi byggingar er það sem einkennir Parísarborg. Allt þetta gerir borgina einstaka. Það má lengi ganga um götur borgarinnar og gleyma sér. Mikið er lagt í öll smáatriði og má þar nefna íburðarmiklar brýr, fagurskreyttar með gyllingu, og hreinleikann.

Parísarborg breyttist mikið á frá árinu 1853 til 1870 og er sá tími kenndur við Haussman barón. Napóleon þriðji, keisari, fyrirskipaði þessar miklar breytingar. Skipulagi borgarinnar var þá umturnað. Voru heilu borgarhverfin rifin og götur breikkaðar. Garðar, torg og gosbrunnir fóru nú að prýða borgina. Breytingarnar voru umdeildar lengi vel og stöðvaði Napóleon þær árið 1870 en þeim var síðan haldið áfram til ársins 1927. Eftir þessar breytingar varð París eins og við þekkjum hana í dag.

Það eiga margir sitt uppáhaldshverfi í París. Áttunda hverfið, sendiráðshverfið í kringum Champs Élysées, hefur breyst í áranna rás. Forríkir olíufurstar hafa keypt upp margar íbúðir þar og því er fasteignaverðið þar með því hæsta í heiminum. Hverfið hefur því dalað hvað menninguna varðar. Lífið hefur færst þaðan, ekki síst í 6. og 7. hverfi.

Latínuhverfið er dæmi um skemmtilegt og líflegt hverfi þar sem tónlistin dynur fram eftir kvöldi og fjölbreyttir veitingastaðir einkenna hverfið. Á hverju strái má finna veitingastaði með mat frá öllum heimshornum þó að franski maturinn sé vissulega áberandi.

Eitt hverfi skal þó enginn fara í ótilneyddur. La Défense er fjármálahverfi borgarinnar og jafnframt eitt stærsta fjármálahvefi í Evrópu. Það á ekkert skylt við París. Byggingarnar eru kuldalegar og klunnalegar. Vegna hönnunnar hverfisins er nánast alltaf rok þar.

Þægilegt er að rata um borgina. Neðanjarðarlestarkerfið er ágætt þó að það sé komið til ára sinna og ekki sérstaklega vel viðhaldið. Það er hins vegar ákveðin upplifun að fara í leigubíl í París. Ef þú vilt æsa leigubílstjóra upp og læra blótsyrði á frönsku, þá spyrðu hvað bílstjóranum finnst um forsetann. Ekki er öruggt að það virki, en þá er leynvopnið Uber. Franskir leigubílstjórar hata ekkert meira en Uber og tómstundagaman margra þeirra er að kveikja í bifreiðum á vegum hins bandaríska smáforrits.

París eru tvær borgir. Glæsileg miðborgin og úthverfin. Mörg úthverfanna eru sjarmerandi og skemmtileg. En í sumum þeirra, eki síst þar sem innflytjendur frá gömlu nýlendum Frakka búa, er ástandið svo slæmt að meira að segja slökkviliðið neitar að fara þangað.

Stikkorð: París  • Champs Élysées