*

Bílar 3. mars 2015

Passat valinn bíll ársins í Genf

Volkswagen Passat er bíll ársins í Evrópu. Citroen og Mercedes lentu í öðru og þriðja sæti.

Volkswagen Passat hef­ur verið val­inn bíll árs­ins 2015 í Evr­ópu.  Peu­geot 308 varð bíll ársins í fyrra og Volkswagen Golf árið 2013.

Tilkynnt var um valið á bílasýningunni í Genf í gærkvöldi en 58 manna dómnefnd bílablaðamanna ákvað valið.

Í öðru sæti varð Citroen C4 Cact­us og Mercedes C-Class varð í þriðja sæti. Passat fékk 340 stig, Cactus fékk 248 og C-Class 221 stig.

Kemur ekki á óvart

Valið kemur ekki á óvart. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins reynsluók bílnum fyrir skömmu og gaf bílnum mjög góðan dóm í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. janúar.

Þar sagði m.a. annars:

Fyrsta kynslóð Passat var byggð á Audi 80 og hefur bíllinn notið vinsælda alla tíð. Um 22 milljónir bíla hafa verið framleiddar frá upphafi. Í fyrra seldist bíllinn í yfir milljónum eintaka. Nýr Passat er væntanlegur til landsins í mars. Við fengum að reynsluaka bílnum á Sardiníu, næststærstu eyju Mið­ jarðarhafsins fyrir skömmu.

 

Það er ekki í anda þýskrar bifreiðahönnunar að bylta útliti bíla milli kynslóða. Mörgum smáatriðum, sem venjulegur bílstjóri tekur ekki eftir, hefur þó verið breytt. Bil milli hjóla aukið um 79 mm sem gaf möguleika á að stækka farþegarýmið. Bíllinn hefur lítillega verið styttur og þakboginn lækkaður. Þetta gerir hann mun sportlegri en forverann og minnir á stundum meira á Passat CC útgáfuna en eldri Passatinn. Þeim í Wolfsburg hefur tekist að létta bíllinn talsvert, eða um 85 kíló.

 

Útlitið Ef nefna á eitthvað eitt sem gerir bílinn fallegri en fyrri kynslóð þá er það tvímælalaust framendinn, grillið og framljósin. Nokkuð beittar línur á húddi og hliðum gerir hann einnig sportlegri. Það er meiri lúxusbragur yfir nýja bílnum. Breytingin á afturendanum er sýnu minni og hefði mátt vera svolítið sportlegri . Okkar dómur er sá að bíllinn sé fallegur og við spáum því að hann muni vekja eftirtekt þegar hann kemur á vegi Íslands. En val á bíl ræðst hjá flestum ekki bara af útlitinu.

 

Þegar sest er inn í bílinn finnur maður strax að Volkswagen menn hafa lagt mun meira í bílinn en forverann. Passat hefur hingað til ekki verið í lúxusflokki en VW hefur tekið ákveðin skref í þá átt við hönnun bílsins. Sætin eru þægileg og það fer vel um bílstjórann. Eins er plássið gott í aftursætunum þökk sé lengra hjólahafi. Volkswagen frumsýndi nýtt stafrænt mælaborð í París. Það var í sumum reynsluakstursbílunum og maður saknaði þess ef það var ekki til staðar. Hægt er að hafa leið­ sögukortið á skjá fyrir miðju mælaborði og einnig milli hraðamælanna og snúningshraðamælisins. Þá færast hraðamælarnir í sundur og kortið verður stórt og þægilegt aflestrar.

Keppinautarnir

Forsvarsmenn Volkswagen eru hreinskilnir með það að Passat var hannaður með það fyrir augum að keppa við lúxusbílaframleið­endurna þýsku. Upplifun okkar er einhvers staðar á milli stærðanna Audi A4 og Audi A6 (BMW 3 og 5 og Mercedes-Benz C og E), þó nær A4.

 

Það er hins vegar mikil samkeppni milli stærðarflokkanna tveggja og þar ræður verðið miklu. Því er VW Passat álitlegur kostur ef ætlunin er að kaupa bíla í þessum flokkum. Það skyldi þó aldrei vera að Volkswagen hafi þarna búið til helsta keppinaut Audi bílanna, sem hefur verið dótturfélag Volkswagen frá árinu 1964