*

Sport & peningar 25. júní 2017

Peningabardaginn mikli

Ótrúlegar fjárhæðir eru í spilunum í einum stærsta bardaga síðari ára. Talið er að Floyd Mayweather geti þénað allt að 400 milljónir dollara en Conor McGregor fær ekki alveg jafnmikið í sinn hlut. Hugsanlega „aðeins“ 127 milljónir.

Einn besti hnefaleikakappi sögunnar, Bandaríkjamaðurinn Floyd Mayweather, mun eftir tvo mánuði mæta Conor McGregor, einum besta bardagamanni í sögu UFC. Bardaginn mun fara fram í T-Mobile höllinni í Las Vegas þann 26. ágúst og má með sanni segja að viðureignin sé ein sú áhugaverðasta í sögu bardagaíþrótta.

Mayweather, sem varð fertugur fyrr á þessu ári, er af mörgum talinn besti hnefaleikamaður allra tíma í sínum þyngdarflokki. Hann lagði hanskana á hilluna fyrir tveimur árum eftir að hafa unnið alla 49 bardaga sína á ferlinum. McGregor hefur hins vegar aldrei keppt í hnefaleikum, hvorki sem atvinnumaður né áhugamaður. Hann hefur síðustu ár verið á meðal bestu keppenda heims í blönduðum bardagalistum. Í nóvember síðastliðnum varð hann fyrsti maðurinn í 23 ár til þess að verða heimsmeistari í tveimur þyngdarflokkum í UFCbardagadeildinni þegar hann sigraði Eddie Alvarez í titilbardaga í léttvigt. Hann hafði áður orðið heimsmeistari í fjaðurvigt þegar hann bar sigur úr býtum í bardaga við Jose Aldo.

Mayweather mun fara fram úr Ronaldo

Upphæðirnar sem bardagamennirnir munu fá í sinn hlut eru gífurlega háar. Hvort bardaginn verði sá verðmætasti í sögunni er þó erfitt að segja til um þar sem bardagamennirnir hafa skrifað undir trúnaðarsamkomulag, sem kemur í veg fyrir að hægt verði að gefa upp hversu háar fjárhæðir eru í spilinu.

Talið er að báðir bardagamennirnir muni fá um 100 milljónir dollara í sinn hlut fyrir það eitt að taka þátt í bardaganum. Hins vegar er McGregor samningsbundinn UFC og er talið að bardagadeildin muni taka fjórð- ungshlut af fjárhæðinni. Írinn myndi þar með fá 75 milljónir dollara í sinn vasa sem er þrisvar sinnum meira en hann fékk fyrir bardagana tvo sem hann keppti í á síðasta ári í UFC.

Með því að samþykkja að taka þátt í bardaganum mun Floyd Mayweather, sem hefur notast við gælunafnið „Money“, verða tekjuhæsti íþróttamaður heims á þessu ári. Hann stingur sér fram úr Cristiano Ronaldo sem þénaði um 93 milljónir dollara á síðustu 12 mánuðum samkvæmt lista Forbes. Það verður þó að teljast líklegt að bæði Mayweather og McGregor verði tekjuhæstu íþróttamenn heims þegar allar tekjur verða taldar saman. Gerir vefmiðillinn Boxing Kingdom ráð fyrir því að Mayweather geti fengið allt að 400 milljónum dollara í sinn hlut á meðan McGregor geti fengið allt að 127 milljónum dollara. Spilar þar inn í hversu margir munu greiða fyrir áhorf á bardaganum auk auglýsingasamninga í kringum bardagann. Samkvæmt ESPN gæti upphæð áhorfsgreiðslna (e. pay-per-view) numið allt að 475 milljónum dollara.

Miklar líkur á sigri Mayweather

Innan bardagaheimsins telja margir bardagann vera óðs manns æði fyrir McGregor. Oscar de la Hoya einn tekjuhæsti hnefaleikakappi sögunnar, sagði í mars síðastliðnum að bardaginn gæti orðið stórslys fyrir UFC. Þá hefur fyrrverandi heimsmeistarinn í hnefaleikum, Ricky Hatton, sagt að hann búist við 12 lotum af slátrun fyrir McGregor. Veð- bankar virðast vera sammála þeim de la Hoya og Hatton sem hafa báðir þurft að lúta í lægra haldi fyrir Mayweather. Veð- málasíðan bet365 hefur sett stuð- ulinn 1,16 á sigur Mayweathers en 5 á að Írinn muni hafa betur.