*

Sport & peningar 26. maí 2013

Peningahliðin á Bayern München og Dortmund

Bayern München hefur varið fjórum sinnum meira en Dortmund til leikmannakaupa á sl. fjórum árum. Tekjur Dortmund hafa þó vaxið hratt.

Þýska knattspyrnuliðið Bayern München hefur varið fjórfalt á við þýska liðið Borussia Dortmund til leikmannakaupa á síðustu fjórum árum og hefur umtalsverða fjárhagslega burði yfir andstæðinga sína úr leik gærdagsins.

Liðin kepptu sem kunnugt er til úrslita í Meistaradeild Evrópu í gær þar sem Bayern München bar sigur úr býtum með 2-1 sigri. Það var hollenski leikmaðurinn Arjen Robben sem skoraði sigurmark München á lokamínútu leiksins eftir æsispennandi leik. Þetta var í fyrsta sinn í sögu Meistaradeildarinnar sem tvö þýsk lið kepptu til úrslia.

Bayern München í raun þýskt stórveldi í allri merkingu þess orðs. Félagið er ekki aðeins sigursælasta liðið í þýskri knattspyrnu heldur hefur það umtalsverða fjárhagslega burði yfir önnur þýsk félög. Borussia Dortmund er hins vegar vaxandi veldi. Samkvæmt úttekt bandaríska tímaritsins Forbes hafa tekjur liðsins rúmlega tvöfaldast á síðustu þremur árum, en félagið sigraði þýsku deildina (Bundesliga) veturinn 2010/11 og 2011/12. Bayern München sigraði deildina hins vegar í ár.

Forbes veltir því einnig upp hvort að þýsku liðin séu að verða stórveldi á borð við spænsku liðin Real Madrid og Barcelona, ásamt Manchester United – en þessi þrjú lið hafa á síðustu árum verið verðmætustu knattspyrnulið Evrópu. Bayern München var þannig metið fimmta vermætasta lið Evrópu á lista Forbes sl. vetur en virði félagsins var talið vera 1,3 milljarður Bandaríkjadala. Dortmund var hins vegar í 13. sæti og metið á um 460 milljónir dala.

Sem fyrr segir hafa tekjur Dortmund aukist nokkuð síðastaliðin ár og námu á nýliðnum vetri um 278 milljónum dala. Tekjur Bayern München voru hins vegar um 480 milljónir dala. Hins vegar nema tekjur Real Madrid og Barcelona yfir 600 milljónum dala á leiktíð þannig að þýsku félögin eiga enn nokkuð í land með að ná þeim tekjum. Eftir að hafa sigrað deildina tvö ár í röð hafa tekjur frá styrktaraðilum aukist úr 39 milljónum evra upp í tæpar 60 milljónir evra. Á sama tíma hafa tekju Bayern München verið rúmlega 80 milljónir evra á leiktíð.

Samkvæmt vef Forbes hefur Bayern München varið um 200 milljónum evra (um 258 milljónum dala og 32 milljörðum króna á núv.gengi) á síðustu fjórum árum í leikmannakaup. Þar á meðal eru leikmenn á borð við Franck Ribery, Arjen Robben og Mario Gomez. Þá keypti félagið nýlega Mario Gotze, helstu stjörnu Dortmund fyrir um 37 milljónir evra sem gerir hann um leið að dýrasta þýska leikmanni sögunnar. Þá hefur Bayern München ráðið Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, til starfa fyrir næstu leiktíð.

Borussia Dortmund er hins vegar þekkt fyrir að ala upp sína eigin leikmenn og hafa því varið mun minni fjárhæðum til leikmannakaupa, fyrir utan að hafa ekki haft til þess mikla fjárhagslega burði fyrr en nú. Félagið hefur varið um 55,5 milljónum evra (um 72 milljónum dala og um 8,9 milljörðum króna á núv.gengi) frá árinu 2009 til leikmannakaupa. Á sama tíma hefur félagið selt leikmenn fyrir um 56 milljónir evra á sama tíma og því nokkurn veginn komið út á sléttu í leikmannaviðskiptum. 

Leikmenn Bayern München taka við bikarnum eftir að hafa sigrað Meistaradeild Evrópu 2013. (Mynd: DailyRecord)