*

Ferðalög & útivist 14. júlí 2013

Gyllta geitin er á einstökum stað við Miðjarðarhafið

Hótelið Château de La Chèvre d’Or eða Gyllta geitin stendur á fallegri klettabrún við suðurströnd Frakklands.

Hótelið Château de La Chèvre d’Or eða kastali Gylltu geitarinnar er fimm stjörnu hótel í þorpinu Èze í Suður-Frakklandi.

Árið 1953 opnaði maður að nafni Robert Wolf veitingastaðinn La Chèvre d’Or eða Gylltu geitina sem stendur á klettabrúninni næst sjónum. Smátt og smátt keypti hann byggingarnar í kringum kapelluna og stofnaði lítið hótel, The Château de La Chèvre d’Or. Árið 1956 varð hótelið hluti af Relais & Châteaux-keðjunni, sem Hótel Holt tilheyrði um tíma, og einn af sex stoppistöðvum keðjunnar á „Veginum til hamingjunnar“, frá París til Frönsku ríveríunnar.

Alls eru 37 herbergi og svítur á hótelinu. Mikill munur er á gæðum og verði og ekki síst útsýninu. Nóttin í minnsta herberginu kostar 60 þúsund krónur (€ 390) en forsetasvítan, sem er 134 fermetrar að stærð og með besta útsýninu, kostar allt að 464 þúsund krónur nóttin (€ 2.900).

Hótelið heitir í höfuðið á veitingastaðnum La Chèvre d’Or sem er með tvær Michelin stjörnur.

Frægir í EZE

Margir frægir hafa dvalið og snætt í Èze. Þýski heimpekingurinn Friedrich Nietzsche dvaldi langdvölum á 19. öldinni í þorpinu sem og króatíski fiðluleikarinn Zalto Balokovi, sem seldi Robert Wolf kastalann undir veitingastaðinn.

Walt Disney kom fyrst til Èze árið 1957, var heillaður af staðnum og dvaldi þar langdvölum.

Furstahjónin Rainier III og Grace Kelly voru einnig tíðir gestir á veitingastaðnum.

Einn af draumum félaganna Jacks Nicholson og Morgans Freeman í kvikmyndinni The Bucket List (2007) var að snæða á Gylltu geitinni. 

Nánar er fjallað um Château de La Chèvre d’Or í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kom út í fyrsta sinn í síðustu viku með Viðskiptablaðinu.

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Sundlaugarsvæðið við hótelið.

Útsýnið er ótrúlegt frá svölum "ódýrari"veitingastaðarins.

Gyllta geitin er á þaki veitingarstaðarins La Chèvre d’Or.