*

Matur og vín 31. júlí 2017

Perlan - eins og þú hefur aldrei séð hana áður

Nýlega opnaði nýr veitingastaður og kaffihús á efstu hæð Perlunnar. Veitingahúsið, sem rekið er af sömu aðilum og eiga Kaffitár, hefur hlotið nafnið Út í bláinn

Kolbrún P. Helgadóttir

Perlan hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarna mánuði en þar er nú áhugaverð og yfirgripsmikil náttúrusýning fyrir alla fjölskylduna á vegum Perlu norðursins. Einnig er falleg gjafavöruverslun á vegum Rammagerðarinnar rekin í húsinu sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna.

Það er óhætt að segja að veitingahús Perlunnar á efstu hæð hafi tekið miklum umbreytingum. Undir hinum fræga glerkúpli er yfirbragðiðið létt, nútímalegt og fágað. Notast er við marmara og við til að skapa létta og leikandi kaffihúsa og bistró stemningu og fyrir miðju er opið eldhús og lyftuhús sem þakið verður lifandi gróðri. Má því segja að náttúran hafi teygt sig frá gróðursælli Öskjuhlíðinni og inn á veitingahúsið sem öðlast yfirbragð gróðurhúss. Útsýnið frá veitingastaðnum er einstakt en þaðan er hægt að skoða borgina í 360 °, yfir skóg, hafið, strendur, fjöll og mannvirki.

Einstakt útsýni

Í miðju rýminu er útsýnispallur þar sem gestir geta komið og notið útsýnisins enn frekar og er sú aðstaða opin öllum gestum byggingarinnar. Perlan og útsýnið frá efstu hæðum verður því mun aðgengilegra fyrir almenning en áður.

Það er uppskrift að fullkomnum degi að fara til dæmis í gönguferð í náttúrufegurð Öskjuhlíðarinnar fyrir eða eftir matinn, en þessi skógsæla hæð er eins og paradís í miðri borg.    

Út í bláinn er einstakt veitingahús staðsett undir glerkúpli Perlunnar, töfrandi heimur þar sem skógur nemur við himinninn með óviðjafnanlegu útsýni í allar áttir. Út í bláinn er bistró með léttu og lifandi yfirbragði þar sem áherslan er lögð á  á einfaldleika og árstíðabundin hráefni, þar sem matarhefðir íslendinga mæta klassískri evrópskri matargerð í óhefðbundnu umhverfi.

Matagerð af gamla skólanum

Matargerð Út í bláinn er í höndum Atla Þórs Erlendssonar fyrrum kokkalandsliðsmanns sem hefur meðal annars stýrt eldhúsi Grillsins á Hótel Sögu. Matargerðin verður einföld með nostalgískum blæ þar sem íslenskar hefðir í bland við klassíska evrópskra matargerðalist fá að njóta sín. Notast verður við íslenskt árstíðabundið hráefni í hæsta gæðaflokki. Atli Þór segir matargerðina af gamla skólanum og á matseðlinum verður hægt verður að finna, meðal annarra rétta, tilbrigði við gufusoðinn þorsk og íslenskar lambakótilettur.

Þjóðkunnir fyrir kaffidrykki

Út í bláinn er rekið af sömu aðilum og eiga Kaffitár sem stofnað var árið 1990. Síðan þá hefur kaffifyrirtækið markað fjölmörg spor í sögu kaffiframleiðslu á Íslandi. Alveg frá upphafi hafa ástríða og fagmennska einkennt framgöngu þess á kaffimarkaði. Kaffibarþjónar Kaffitárs eru fyrir löngu orðnir þjóðkunnir fyrir færni sína við kaffidrykki, og hafa jafnt og þétt lagt „kaffiheiminn“ á borð fyrir neytandann.

“Við elskum að gera mat frá grunni með uppruna og gæði að leiðarljósi. Við viljum að maturinn hjá Út í bláinn endurspegli sömu ástríðu og alúð og kaffið okkar hjá Kaffitári” segir Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi Kaffitár