*

Bílar 8. september 2019

Perlur í Porsche-safninu

Margar perlur úr sögu bílaframleiðandans Porsche má skoða í safninu sem er við Stuttgart borg í Þýskalandi.

Róbert Róbertsson

Porsche-safnið í Zuffenhausen, útborg Stuttgart, geymir mikla og spennandi sögu um bíla þýska bílaframleiðandans. Það er óhætt að segja að það sé draumur hvers bílaáhugamanns að heimsækja safnið enda eru geymdar þar margar óviðjafnanlegar perlur.

Porsche-safnið var upphaflega sett á laggirnar árið 1976 en ákveðið var að stækka safnið verulega og hafist var handa við nýja byggingu árið 2005. Safnið var opnað í núverandi mynd árið 2008 í mjög stórri og nútímalegri byggingu í Zuffenhausen sem er alls 5.600 fermetrar að stærð. Það er hannað af arkitektinum Delugan Meissl og staðsett við hliðina á skrifstofum Porsche og nálægt sjálfum verksmiðjunum þar sem þessir þýsku gæðabílar eru smíðaðir.

Það er sérlega gaman að skoða safnið og alla mögnuðu sportbílana sem þar eru. Allt frá fyrsta Porsche-bílnum til nýjustu fjölskylduafkvæma Porsche, til dæmis er á safninu fyrsti 911 sportbíllinn sem olli straumhvörfum. Saga Porsche er um margt mjög merkileg.


Porsche-safnið var opnað í núverandi mynd árið 2008 í mjög stórri og nútímalegri byggingu í Zuffenhausen sem er alls 5.600 fermetrar að stærð.

Fékk orðu frá Hitler

Ferdinand Porsche stofnaði fyrirtækið Porsche Engineering í Stuttgart árið 1931. Þar með var grunnurinn lagður að Dr. Ing.h.c.F. Porsche AG eins og fyrirtækið heitir enn í dag. Merkilegasta og þekktasta verkefni Ferdinand Porsche var Project 60 eða Volkswagen fyrir þýska ríkið árið 1934. Fyrstu þrjár forgerðirnar af VW-bjöllunni voru smíðaðar hjá Porsche ásamt fyrstu framleiðslurununni fyrir þýska herinn. Adolf Hitler sæmdi Ferdinand Porsche orðu fyrir Volkswagen bílinn.

Eftir að Bandamenn hófu loftárásir á Þýskaland í seinna stríðinu árið 1944 var bílaverksmiðja Porsche flutt frá Stuttgart til Gmünd í Austurríki þar sem hún fékk inni í gamalli sögunarmyllu. Fyrstu 50 bílarnir voru smíðaðir í Gmünd 1949 en 1950 var bílasmiðja Porsche flutt aftur til útborgar Stuttgart, Zuffenhausen.


Margir magnaðir Porsche bílar frá ýmsum tímum fyrirfinnast í safninu í Zuffenhausen.

Fyrsti Porsche sportbíllinn

Hinn 8. júní árið 1948 kom fyrsti Porsche sportbíllinn fram á sjónarsviðið. Ferdinand „Ferry“ Porsche, sonur og alnafni stofnandans, lét hanna og smíða þennan bíl sem bar nafnið Porsche 356/1. Bíllinn var tveggja sæta opinn roadster.
Ferry Porsche, sem hafði komið inn í fyrirtækið með föður sínum, var öflugur mjög og hannaði einnig og bjó til Grand Prix kappakstursbíl sem bar heitið Cisitalia. Kappakstursbíllinn var kynntur á bílasýningunni í Tórínó árið 1948. Hann var tólf strokka, 385 hestöfl, fjórhjóladrifinn og komst í 300 km/klst.


Fyrsti Porsche sportbíllinn var Porsche 356/1. Aðrar perlur sjást í bakgrunni.

Undir stjórn Ferry Porsche var einnig smíðaður opinn sport/ keppnisbíll sem nefndist 550 Spyder.

Töldu sig hafa einkarétt á núlli í miðjunni

Hinn goðsagnakenndi sportbíll Porsche 911 var kynntur á bílasýningunni í Frankfurt árið 1963 og ári síðar hófst framleiðsla á Neunelf eins og Þjóðverjarnir kalla þennan magnaða sportbíl. Upphaflega fékk bíllinn númerið 901 og tók hann við Porsche 356.

Fyrsti 911 sportbíllinn sem upphaflega fékk númerið 901.

Deilur við franska bílaframleiðandann í Peugeot, sem taldi sig hafa einkarétt á þriggja númera nafni með núlli í miðjunni, ollu því að nafninu var breytt í 911. Annars hefði þurft að selja bílinn undir öðru nafni í Frakklandi. Því voru aðeins 82 bílar smíðaðir sem 901.

Bíllinn var mun stærri, kraftmeiri og búinn meiri þægindum en 356 og hefur notið mikilla vinsælda frá fyrsta degi en nýjasta kynslóð bílsins var kynnt í Frankfurt í fyrra. Keppnisútgáfan af 911 fékk nafnið 912.


Porsche 918 Spyder í Hybrid útfærslu.

Stikkorð: Porsche  • bílar  • Hitler  • sportbíll  • Stuttgart  • Zuffenhausen  • Ferdinand Porsche  • Porsche Engineering  • Ferry Porsche