*

Matur og vín 7. maí 2017

„Mæli ekki með því að gera matreiðsluþætti með mikla ógleði.“

Í eldhúsi Evu eru nýir þættir sem hófu nýlega göngu sína á stöð 2 með sjónvarpskokkinum Evu Laufeyju Kjaran. Eva gengur með sitt annað barn og átti þar af leiðandi nokkrar krefjandi stundir við upptökur þáttanna.

Kolbrún P. Helgadóttir

Hvaða áherslur verða í þessari þáttaröð?

Í þessari þáttaröð heimsæki ég meðal annars veitingastaði og bakarí og fæ að vera starfsmaður í þjálfun, þegar ég er búin að læra af matreiðslusnillingunum fer ég heim í eldhús og endurgeri réttina með „heima version“. Ég er nú þegar búin að heimsækja Austur Indíafjelagið, Brauð og Co og næst á dagskrá er að heimsækja Sushi Social. Ég hef ótrúlega gaman af þessu og læri svo mikið nýtt og spennandi, og áhorfendur í leiðinni. Við erum svo heppin á Íslandi með alla þessa flottu veitingastaði og því frábært að fá að læra af þessu fagfólki. En rauði þráðurinn í þáttaröðinni er einföld, fljótleg og bragðgóð matreiðsla sem hentar öllum.

Hvar færðu innblástur af nýjum uppskriftum?

Út um allt, ég horfi mikið á matreiðsluþætti í sjónvarpinu, skoða myndbönd á netinu, les matreiðslutímarit og skoða matreiðslubækur. Einnig fæ ég mikinn innblástur þegar ég fer út að borða. Í rauninni er innblásturinn út um allt. 

Ný orðin ólétt og að búa til nýja þáttaröð, voru engar erfiðar stundir í eldhúsinu?

Jú, ég mæli ekkert sérstaklega með því að gera matreiðsluþætti með mikla ógleði. Ég er í raun nýskriðin yfir það tímabil enda rétt um það bil hálfnuð og er því voða sæl að vera ekki „þunn“ alla daga. Ég átti nokkra góða upptökudaga en aðrir voru miserfiðir og þá var ég með kók eða pepsí mér við hlið sem kom mér í gegnum erfiðu stundirnar. En matarlystin var ekki upp á marga fiska.

Er einhver sérstakur matur sem að líkaminn kallar á um þessar mundir?

Kolvetni, brauð, pasta og aftur pasta er það sem líkaminn kallar á og ég svari því kalli góðfúslega.

Hefur matseldin á heimilinu breyst eftir að þú varst móðir?

Í rauninni hefur hún ekki breyst, ég hef alltaf eldað mjög fjölbreytt og hef gaman af því að elda heima, ég er kannski meira meðvitaðri um að bjóða oftar upp á meiri grænmeti og ávexti en áður. Og að það sé alltaf kvöldmatur – því þegar við vorum bara tvö þá var þetta aðeins öðruvísi, þá var matmálstími ekki eins heilagur.

Áttu þér einhvern uppáhalds rétt sem þú bara færð ekki leið á?

Góð súpa, góður pastaréttur og súkkulaðieftiréttur er eitthvað sem ég get eldað á hverjum degi og borðað án þess að fá leið á. Ég fæ miklu frekar leið á fiski eða kjöti, ég myndi án efa segja að týpískur pastaréttur með heimagerði tómat-og basiílkusósu væri klassík sem ég slæ aldrei hendinni á móti. Borin fram með góðum parmesan að sjálfsögðu og kannski einu rauðvínsglasi. Þegar ástandið leyfir það er að segja.

Geta allir lært að elda góðan mat?

Já, svo lengi sem fólk hefur áhuga og gaman af því að elda og borða góðan mat þá geta allir eldað góðan mat. Ég trúi því að það skipti miklu máli að hafa tilfinningu fyrir því sem þú ert að gera, ef þú leggur nógu mikla ást í verkið að þá er útkoman alltaf góð.

Er von á fleiri matreiðslubókum frá þér?

Ég er alltaf að setja hugmyndir niður á blað og ég er með nokkrar bækur í huganum sem ég vona að verði að veruleika, fyrr en síðar. Ég hef ótrúlega gaman af bókaútgáfu og elska að vinna bækurnar mínar. Þar fæ ég að njóta mín í botn!

Áttu þér eina uppáhalds uppskrift úr þáttaröðinni sem þú vilt deila með lesendum Eftir vinnu?

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift sem ég veit að á eftir að slá í gegn á heimilium landsmanna, en þetta er svakalega gott steikar takkó með öllu tilheyrandi. Ótrúlega einfalt, fljótlegt og gott sem allir geta leikið eftir

Steikar takkó

400 g nautasteik t.d. Sirloin steik

Ólífuolía

1 msk steinselja

¼ rautt chili

Hvítlauksrif

Salt og pipar

Aðferð:

Saxið niður steinselju, chili og hvítlauk. Blandið saman við ólífuolíu og nuddið steikinni upp úr marineringunni, kryddið einnig með salti og pipar.

Hitið grillpönnu og setjið kjötið á þegar pannan er orðin mjög heit, steikið í um það bil fimm til sex mínútur á hvorri hið. Það fer auðvitað eftir þykktinni á kjötinu og smekk hvers og eins.

Kjötið þarf að hvíla í lágmark sex mínútur þegar það er tilbúið. Á meðan undirbúið þið meðlætið.