*

Bílar 28. nóvember 2020

Peugeot 3008 á leið til landsins

Brimborg mun bjóða bílinn frá franska framleiðandanum í bensín, dísil og tengiltvinn rafútfærslu.

Róbert Róbertsson

Glænýr Peugeot 3008 er nú á leiðinni til Íslands og mun Brimborg bjóða hann í bensín, dísil og í tengiltvinn rafútfærslu.
Þessi nýjasti bíll franska bílaframleiðandans er með nýjum og kröftugum framenda þar sem nýtt grill, LED framljós með háuljósaaðstoð og LED afturljós leika aðalhlutverk.

Hönnunin hefur heppnast vel hjá Peugeot með þennan nýja 3008. Það kemur ekki á óvart enda hefur franski bílaframlieðandinn verið að standa sig vel í hönnun á bílum sínum undanfarin ár. Peugeot 3008 er með mikla veghæð og háa sætisstöðu. Hann er hár undir lægsta punkt eða 22 cm sem er með því hæsta sem þekkist í flokki tengiltvinn rafbíla.

Innra rýmið er nútímalegt og notendavænt þar sem nýjasta kynslóð af i-Cockpit innréttingu leikur aðalhlutverk. Notagildi og  þægindi fyrir ökumann eru höfð að leiðarljósi þar sem öll stjórntæki, mælar og skjáir eru í sjónlínu ökumanns.

Peugeot 3008 er fáanlegur í bensín, dísil- eða í tengiltvinn rafbíla útfærslu. Bensín- og dísilvélarnar eru með nýjustu kynslóðum sparneytinna PureTech bensín og Blue Hdi dísilvéla.

Bensínvélin eyðir frá 6,4 l per 100 km, sparneytinn dísilvélin eyðir frá 5,2 l per 100 km og tengitvinn rafbíll eyðir frá 1,6 l per 100 km skv. WLTP mælingu. Peugeot 3008 er með nýrri 8 þrepa sjálfskiptingu sem sparar allt að 7% af eldsneyti miðað við eldri 6 þrepa sjálfskiptingar.

Bíllinn er fáanlegur fram- og fjórhjóladrifinn. Framdrifinn Peugeot 3008 PHEV skilar samanlagt 225 hestöflum með 180 hestafla bensínvél og 50 hestafla rafvél. Fjórhjóladrifinn Peugeot 3008 PHEV skilar 300 hestöflum með 200 hestafla bensínvél og tveimur rafvélum sem hvor fyrir sig skilar 110 hestöflum.

Ríkulegur staðalbúnaður einkennir nýjan Peugeot 3008. GPS vegaleiðsögn, bakkmyndavél með 180° víddarsýn, nýr 10" margmiðlunarskjár, Mirror Screen speglun, ásamt nýjustu öryggistækni, til að mynda sjálfvirk neyðarhemlun.

Peugeot 3008 er nú fáanlegur með nýrri næturmyndavél sem skynjar vegfarendur eða dýr í allt að 200 m fyrir framan ökutækið. Peugeot 3008 tengiltvinn rafbíll er með fjarstýrðri forhitun sem tryggir heitan og þægilegan bíl.

Stikkorð: Peugeot  • Brimborg