*

Bílar 27. maí 2016

Peugeot kynnir nýjan 3008 sportjeppa

Franski bílaframleiðandinn Peugeot kynnti nýjan sportjeppa í París í gær.

Franski bílaframleiðandinn Peugeot kynnti nýjan Peugeot 3008 með viðhöfn í París í gær. Þessi netti sportjeppi kemur mikið breyttur miðað við núverandi bíl og bæði stærri og betur búinn.

Nýi bíllinn er með glænýjum undirvagni sem smíðaður er upp úr EMP2 undirvagninum sem fengið hefur mjög góða dóma. Bíllinn kemur bæði með dísil og bensínvélum. Vinsælustu útfærslurnar að sögn franska bílaframleiðandans eru sagðar vera 165 hestafla bensínvél og 180 hestafla dísilvél.

Bíllinn er mun tæknivæddari en áður og kemur m.a. með 12,3 tommu snertiskjá. Peugeot hefur lýst því yfir að sportjeppinn verði fáanlegur í Plug-in Hybrid útfærslu árið 2019 og þá með þráðlausum hleðslubúnaði.

Tengiltvinnbíllinn verður bæði með bensínvél og rafmagnsmótor. Peugeot fetar þar með í fótspor fjölmargra bílaframleiðanda m.a. þýsku lúxusbílaframleiðandanna, sem framleiða tengiltvinnbíla enda þykja þeir vinsælir um þessar mundir.

Stikkorð: Bílar  • Peugeot  • París  • Sportjeppi