*

Menning & listir 20. maí 2021

Picasso málverk fór á 13 milljarða

Málverk eftir Pablo Picasso seldist á 103 milljónir dala, um þrefalt hærra verð en það fór á í uppboði fyrir átta árum síðan.

Málverk eftir Pablo Picasso seldist á 103,4 milljónir dala, eða um 12,7 milljarða króna, á uppboði í New York fyrir rúmri viku. Um er að ræða fyrsta skipti sem málverk hefur selst fyrir meira en hundrað milljónir dala í nærri tvö ár, að því er kemur fram í frétt Barrons

Verkið, sem heitir Femme assise près d’une fenêtre, er eitt af röð málverka sem Picasso málaði af ástkonu sinni Marie- Thérèse árið 1932. Kaupverðið kemur Femme assise á topp 10 lista yfir dýrustu Picasso málverkin á uppboðum. Sama málverk hafði selst á uppboði fyrir rúmum átta árum fyrir 28,6 milljónir punda. 

Sala uppboðshússins Christie‘s nam alls 415 milljónum dala þetta kvöld, sem hækkaði upp í 481 milljón dala með þóknunum. Þar spilaði In This Case eftir Jean-Michel Basquiat einnig stóran þátt en verkið fór á rúmlega 90 milljónir dala. 

Bonnie Brennan, forseti Christie‘s, sagði á rafrænum blaðamannafundi eftir uppboðið að salan hafi verið góð í samanburði við listamarkaðinn áður en faraldurinn hófst. Hún bindur vonir við að listaheimurinn sé nú kominn á fullt skrið á ný.