*

Ferðalög & útivist 9. nóvember 2015

Piemonte: Vagga hægbitans

Eðalvín, bílar og matargerð í hæsta gæðaflokki gera Piemonte eitt mest spennandi hérað Ítalíu að sækja heim.

Piemonte er í norðvesturhluta Ítalíu og liggur að landamærum Frakklands og Sviss. Alparnir eru í norðri og þýðir nafn héraðsins „við fætur fjallsins“. Höfuðborg Piemonte er Tórínó. Þrátt fyrir að vera mikil iðnaðarborg og heimavöllur bílaframleiðandans Fiat, þá er borgin falleg og vel þess virði að heimsækja. 

Héraðið er einna þekktast fyrir umfangsmikla vínframleiðslu og þaðan koma mörg af kunnustu vínum Ítalíu: Barolo og Barbaresco. Þó svo að vissulega sé talsverður fjöldi ferðamanna í Piemonte á hverjum tíma, þá eru þeir ekki áberandi og því upplifir maður ítalska menningu eins og hún gerist best. Svæðið er því eitt best geymda leyndarmál Ítalíu.

Matarmenningin er einnig mikil á svæðinu og hugmyndin um hægbita (e. slow food) er ríkjandi. Margir bændur bjóða upp á gistingu og mat unninn úr eigin hráefni. Það nefnist agriturismo á frummálinu. Verðið á þessum stöðum er mjög hagstætt og flestir eru bændurnir stoltir af sínum sérréttum. Að auki er mikill fjöldi góðra, en um leið dýrra, veitingastaða á svæðinu og margar Michelin-stjörnur stutt frá, hvar sem þú ert staddur á svæðinu. Þess vegna er því haldið fram af mörgum matgæðingum að Piemonte sé orðinn höfuðstaður Ítalíu í matargerð. Það er vissulega stór og mikil fullyrðing, en eftir að hafa ferðast um héraðið maður skilur hana vel.

Fjallað er um Piemonte í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.