*

Hitt og þetta 30. mars 2018

Pillan var efnahagslegt kraftaverk

Getnaðarvarnarpillan gaf konum stjórn og tækifæri til þess að fjárfesta í starfsferlinum.

Flestir eru sammála um að tilkoma getnaðarvarnarpillunnar hafi haft mikil samfélagsleg áhrif, enda var það markmiðið með henni. Margaret Sanger, baráttukona fyrir réttindum kvenna, hvatti vísindamenn til að þróa pilluna og taldi hana geta frelsað konur kynferðislega en ekki síður í samfélagslegum skilningi og að hún myndi setja konur jafnfætis körlum. 

Getnaðarvarnarpillan var ekki bara samfélagsleg bylting heldur líka efnahagsleg. Ef til vill hafði hún í för með sér stærstu efnahagslegu breytingar síðari tíma. 

Notkun pillunnar var fyrst heimiluð í Bandaríkjunum árið 1960. Innan fimm ára voru helmingur giftra kvenna, sem notuðust við getnaðarvarnir, á pillunni. Stóru breytingarnar í efnahagslegu tilliti áttu sér hins vegar stað þegar ógiftar konur fóru að nota hana.

Eftir að ungum ógiftum konum var gert kleift að nota pilluna upp úr 1970 skráðu konur sig í stórum stíl í háskóla í greinum á borð við lækningar, lögfræði, tannlækningar og viðskiptafræði. Áður höfðu þessar greinar verið af karllægar og nánast eingöngu karlmenn sem lögðu stund á þær. Árið 1970 voru 90% úskrifaðra lækna karlmenn og yfir 95% lögfræðinga voru einnig karlar. Árin á eftir varð þróunin hins vegar sú að hlutfall kvenna tók að hækka. 

Þótt aðrir samfélagslegir kraftar hafi einnig verið að verki bendir rannsókn tveggja hagfræðinga frá Harvard sterklega til þess að pillan hafi verið einn stærsti áhrifavaldur þess að konur sóttu í auknum mæli í stöður sem kröfðust aukinnar sérfræðimenntunar með tilheyrandi áhrifum á launastig kvenna.  

Ástæðan fyrir því að pillan hafði svona mikil áhrif á hvaða nám konur völdu er talin vera sú að með því að geta stýrt barneignum höfðu þær aukið svigrúm til þess að fjárfesta tíma og peningum í framtíðarstarfsferli. 

Þannig gátu hagfræðingarnir sýnt fram á niðurstöður tölfræðigreiningar sem bentu til þess að með því að fresta barneignum um eitt ár gátu ungar konur að meðaltali búist við 10% hærri ævitekjum.

Umfjöllunin er unnin upp úr hlaðvarpi BBC - 50 Things That Made the Modern Economy ásamt öðrum heimildum.