*

Menning & listir 20. september 2013

Platan var nokkur ár í vinnslu

Hljómsveitin Strigaskór nr. 42, úr Kópavogi, hefur gefið út nýja plötu.

Ný plata hljómsveitarinnar Strigaskór nr. 42 hefur verið nokkur ár í vinnslu. Platan er nú komin út en hún kemur einungis út á rafrænu formi og er fáanleg á Gogoyoko og fleiri tónlistarveitum.

Elstu lögin eiga rætur að rekja til sýningar Herranætur í Tjarnarbíói árið 1995 þar sem Strigaskór sáu um tónlistina. Platan  inniheldur tíu lög og er rúmar þrjátíu mínútur að lengd.

Þetta er fyrsta skífa sveitarinnar frá því hún gaf út plötuna Blót árið 1994 sem hlaut góðar viðtökur og hefur síðan öðlast ákveðinn sess hjá mörgum. Skömmu síðar lagðist sveitin í dvala en hefur síðustu misseri komið fram af og til. Þar á meðal á Eistnaflugi sumarið 2012.

Útgáfutónleikar hljómsveitarinnar verða haldnir síðar. Sveitin mun þó flytja bróðurpart hennar á Rokkjötnum í Kaplakrika þann 5. október næstkomandi og þá kemur sveitin fram á Iceland Airwaves í byrjun nóvember.

Meðlimir sveitarinnar eru:
Ari Þorgeir Steinarsson - Trommur
Gunnar Reynir Valþórsson - Gítar
Hlynur Aðils Vilmarsson - Gítar og söngur
Kjartan Róbertsson - Bassi

Hér að neðan má hlusta á lagið Adanac, sem er á plötunni.