*

Tölvur & tækni 24. desember 2013

Playstation vinsælli en Xbox á eBay

Mun fleiri Playstation tölvur hafa selst á eBay en Xbox tölvur frá því að tölvurnar komu á markað í haust.

Aðeins eru nokkrar vikur síðan nýjustu útgáfur leikjatölvanna Playstation og Xbox komu á markaðinn og samkvæmt frétt Ars Technica hefur Playstation ákveðið forskot á keppinautinn, að minnsta kosti á eBay uppboðssíðunni.

Í lok nóvember höfðu báðar tölvurnar selst í um tveimur milljónum eintaka, en sölutölur fyrir hátíðirnar hafa ekki verið birtar. Ars Technica segir frá því að alls hafi um 65.000 Playstation 4 tölvur selst á síðunni og um 33.000 Xbox One tölvur. Þá mun álagning á Playstation tölvurnar vera meiri en á Xbox.

Erfitt er að meta hvort þetta sé vegna þess að Playstation er raunverulega vinsælli en Xbox eða hvort ástæðan sé einfaldlega sú að framboð á Playstation tölvum í verslunum sé minna.

Stikkorð: Xbox One  • Playstation 4