*

Bílar 17. nóvember 2021

Polestar kemur til Íslands

Polestar 2 rafbíllinn með Long range Dual mótor mun kosta 6,75 milljónir króna.

Polestar, sænskur rafbílaframleiðandi, hefur hafið sölu bíla sinna á Íslandi með Polestar 2 rafbílnum. Polestar Space sýningarsalur opnar hjá Brimborg, umboðsaðila Polestar á Íslandi, þann 25. nóvember næstkomandi en stærri, varanlegur, Polestar Destination sýningarsalur opnar í Brimborg á fyrsta fjórðungi ársins 2022.

Rafbíllinn Polestar 2 er framúrstefnulega hannaður með vegan innréttingu sem staðalbúnað, sjálfbærniáherslu í öllu efnisvali sem.

Polestar 2 verður í boði á Íslandi með stóra 78 kWh drifrafhlöðu og tvo rafmótora sem skapar einstakt fjórhjóladrifsgrip með heildarafköstum sem nema 300 kW / 408 hestöfl og 660 Nm togi. Auk ríkulegs staðalbúnaðar er Pilot pakki í boði sem inniheldur háþróaða akstursstuðningstækni og uppfærða innilýsingu ásamt mörgu öðru. Polestar 2 Long range Dual motor kostar 6.750.000 kr.

Rafbíllinn var heimsfrumsýndur árið 2020 og hefur hlotið fjölda verðlauna. Hann hlaut titilinn „Bíll ársins“ í Noregi og Sviss, var kosinn besti alhliða rafbíllinn af BBC Top Gear Magazine, hlaut Red Dot-verðlaunin fyrir framúrskarandi hönnun og eftirsótta titilinn „Gullna stýrið“ í Þýskalandi.

Polestar 2 var fyrsti bíllinn í heiminum sem kom á markað með upplýsinga- og afþreyingarkerfi frá Android með innbyggðum Google-eiginleikum. Raddstýring ásamt 11 tommu snertiskjá hleypa lífi í þetta nýja viðmót. Stöðug nettenging tryggir einnig að smáforritin eru ávallt uppfærð, sem og bíllinn sjálfur. Polestar notar þráðlausar uppfærslur (OTA) til reglulegra uppfærslna á hugbúnaði bílsins og til uppfærslu á nýjum búnaði.

Stikkorð: Polestar