*

Bílar 5. desember 2021

Pólstjarnan skín skært

Rafbíllinn Polestar 2 var heimsfrumsýndur í fyrra og hefur hlotið fjölda verðlauna, en mikið er lagt upp úr öryggi í hönnun bílsins.

Róbert Róbertsson

Rafbíllinn Polestar 2 var frumsýndur hér á landi í liðinni viku og koma hans á íslenskan markað markar ákveðin tímamót. Hér bætist við enn eitt bílamerkið í flóruna og hér er á ferðinni hreinn rafbíll sem vekur athygli. Pólstjarnan var tekinn í reynsluakstur og sýndi hvað hún gat.

Rafbíllinn var heimsfrumsýndur árið 2020 og hefur hlotið fjölda verðlauna, meðal annars titilinn „Bíll ársins“ í Noregi og Sviss, og eftirsótta titilinn „Gullna stýrið“ í Þýskalandi. Pólstjarnan er fjögurra dyra lúxusfólksbíll og framúrstefnulega hannaður með vegan innréttingu sem staðalbúnað, raunar sjálfbærniáherslu í öllu efnisvali. Hann líkist talsvert Volvo í hönnun og útliti sem kemur ekki á óvart. Hann getur ekki reynt að sverja af sér ætternið. Polestar 2 er framleiddur í sömu verksmiðju og Volvo XC40 rafbíllinn í Luqiao í Kína, en þeir deila einmitt CMA-undirvagninum. Framleiðsla Polestar 2 hófst í mars í fyrra og er um fyrsta rafbíl merkisins að ræða. Áður hafði Polestar 1 tengiltvinnbíllinn verið framleiddur í takmörkuðu upplagi.

Dregur 482 km á rafmagninu

Polestar 2 er í boði á Íslandi með stórri 78 kWh drifrafhlöðu og tveimur rafmótorum sem skila 408 hestöflum og 660 Nm togi. Bíllinn er mjög aflmikill og fljótur upp. Hann er 4,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 205 km/klst. Drægni á rafmagninu er 482 km samkvæmt upplýisngum frá framleiðanda sem er mjög gott. Bíllinn er fjórhjóladrifinn og hefur gott grip eins og finna mátti vel í hálkunni sem myndaðist á meðan á reynsluakstrinum stóð. Í Performance-útgáfu kemur hann með stillanlegri Öhlins fjöðrun og öflugum Brembo bremsum.

Pólstjarnan er góður og skemmtilegur akstursbíll. Hann hefur mikið afl og aksturseiginleikarnir eru fínir og ljúfir. Hann er mýkri en ég átti von á bæði á malbiki og möl. Bíllinn er þéttur og lítið sem ekkert veghljóð heyrist inn í hann. Hann stendur sig vel þegar tekið er á honum í beygjum og steinliggur á veginum.

Nútímalegur og tæknivæddur

Innanrýmið er nútímalegt. Stór skjárinn sér um allt hvort sem það tengist akstursupplýsingum eða afþreyingu. Auk ríkulegs staðalbúnaðar er Pilot pakki í boði sem inniheldur háþróaða akstursstuðningstækni og uppfærða innilýsingu ásamt mörgu öðru.

Polestar 2 er fyrsti bíllinn í heiminum sem kom á markað með upplýsinga- og afþreyingarkerfi frá Android með innbyggðum Google-eiginleikumm. Raddstýring ásamt 11 tommu snertiskjá hleypa lífi í þetta nýja viðmót. Stöðug nettenging tryggir einnig að smáforritin eru ávallt uppfærð, sem og bíllinn sjálfur. Polestar notar þráðlausar uppfærslur (OTA) til reglulegra uppfærslna á hugbúnaði bílsins og til uppfærslu á nýjum búnaði.

Keyptir á netinu

Mikið er lagt upp úr öryggi í hönnun Polestar 2 en hann fékk hæstu einkunn rafbíls í árekstraprófi Euro NCAP. Hann aftengir rafhlöðuna við árekstur og er hönnunin á þann veg að hún er sérstaklega varin. Þetta kemur ekki á óvart þegar tengingin við Volvo er höfð í huga. Svíarnir huga vel að örygginu. Það er ekkert nýtt.

Polestar 2 kostar frá 6.750.000 kr. og honum fylgir fimm ára ábyrgð, átta ára ábyrgð á drifrafhlöðu, þjónusta og viðhald í þrjú ár, ókeypis lánsbíll við reglulega þjónustu og ábyrgðarviðgerðir og vegaþjónusta um land allt. Polestar rafbílar eru keyptir á netinu, nánar tiltekið á polestar.com/is í gegnum einfalt og fullkomlega stafrænt ferli sem stutt er við með sölustöðum víða um heim sem ganga undir nöfnunum Polestar Space og Polestar Destination.