*

Bílar 4. mars 2021

Porsche frumsýnir Taycan Cross Turismo

Dýrasta týpan af Cross Turismo er með 761 hestöfl og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 2,9 sekúndum.

Þýski sportbílaframleiðandinn Porsche kynnti í dag nýjan bíl Taycan Cross Turismo með alheimsfrumsýningu í streymi á netinu.

Útlitslega sver Taycan Cross Turismo sig mjög í ætt við Mission E Cross Turismo hugmyndabílinn sem var kynntur á alþjóðlega bílasýningunni í Genf árið 2018. Með þessum nýja bíl breikkar Porsche framleiðslulínu fyrsta rafmagnaða sportbíl framleiðandans með þessum alhliða sportjeppa og heldur áfram vegferð sinni í átt að orkuskiptum.

Líkt og Taycan bíllinn er Taycan Cross Turismo byggður á hinni byltingarkenndu 800 volta tækni. Einnig stuðlar hinn hátæknivæddi undirvagn bílsins með fjórhjóladrifi og stillanlegri loftpúðafjöðrun að því að eiginleikar bílsins til aksturs í krefjandi aðstæðum eru með allra besta móti. 

Einnig geta aftursætisfarþegar um mjög frjálst höfuð strokið þar sem höfuðrými er vel skammtað og vel fer um farangur fjölskyldunnar í 1200 lítra stóru skottinu. Cross Turismo er því mjög alhliða, rafmagnaður, fjölskyldu sportbíll. Hinn hátæknivæddi undirvagn bílsins skartar fjórhjóladrifi og stillanlegri loftpúðafjöðrun sem staðalbúnaði á öllum fjórum týpum.

Hægt verður að fá svokallaðan “Offroad Design” pakka sem eykur veghæð um allt að 30 millimetra sem gerir akstur á krefjandi malarvegum að leik einum. “Gravel Mode” eða utanvegahamur er einnig staðalbúnaður og gerir það bílinn enn betur í stakk búinn til keyrslu á krefjandi vegum utan alfaraleiðar.

Fjórar týpur af Cross Turismo verða til reiðu frá upphafi. “Performance Battery Plus” rafhlaðan, sem er 93.4 kWh að stærð, er staðalbúnaður í öllum týpum. Týpurnar eru allar með “overboost” krafti sem notast við “Launch Control”.

Taycan 4 Cross Turismo sem er 476 hestöfl og kemur bílnum úr 0–100 km/hraða á 5,1 sekúndu. Hámarkshraði er 220 km/klst og drægni (WLTP) 456 km.

Taycan 4S Cross Turismo er 571 hestöfl og kemur bílnum úr 0-100 á 4,1 sekúndu. Hámarkshraði er 240 kílómetrar á klukkustund og drægni (WLTP) 452 km.

Taycan Turbo Cross Turismo er 680 hestöfl og er 3,3 sekúndur úr 0-100. Hámarkshraði er 250 km/klst og drægni (WLTP) 452 km.

Síðast en ekki síst er það Taycan Turbo S Cross Turismo sem er alls 761 hestöfl en hann fer úr 0–100 km/klst á aðeins 2,9 sekúndum. Hámarkshraði er 250 km/klst og drægni (WLTP) 419 km.