*

Bílar 14. janúar 2013

Porsche Panamera GTS verðlaunaður

Valinn Sportbíll Auto Bild fyrir árið 2012. Magnaður bíll í ýmsum hlutverkum.

Hinn fjögurra dyra sportbíll Porsche Panamera GTS hlaut nýverið titilinn Sportbíll Auto Bild fyrir árið 2012 í flokknum „Fjöldaframleiddir fólksbílar“.

Panamera er nefnilega meira en einfaldlega magnaður sportbíll því hann gegnir um leið hlutverki fólksbíls eða forstjórabíls. GTS stendur fyrir Gran Turismo Sport og þessi merking hefur staðið fyrir ofuraflmiklum Porsche bílum allt frá hinum goðsagnakennda 904 Carrera GTS árið 1963.

Panamera GTS er með aflmikilli 4,8 lítra, V8 vél sem er án forþjöppu en skilar 430 hestöflum. Hámarkstogið er 520 Nm.

En það er ýmislegt annað sem einkennir bílinn, ekki síst útblásturskerfið sem skapar tilfinningaríkan og sportlegan hljóm þegar bílnum er gefið inn.

Auk þess er veghæð hans 10 mm lægri og sérhannaður sportundirvagninn er með stillanlegri loftpúðafjöðrun og Porsche Active Suspension Management (PASM). Þessi búnaðurinn gerir hann að hæfum keppnisbíl á keppnisbrautum án þess að nokkru þurfi að fórna í þægindum í daglegri notkun innan og utan borga og bæja.

Þetta var í ellefta sinn sem lesendaverðlaun Auto Bild Sportscars voru veitt. Að þessu sinni tóku 72.500 lesendur þátt í kjörinu.