*

Bílar 15. júlí 2014

Porsche stórleikara til sölu

Steve McQueen hafði dálæti á sportbílum.

Vonir eru bundnar við að kappakstursbíll af gerðinni Porsche 917 módel 1969 seljist fyrir geysihátt verð á uppboði í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Þetta mun vera einn af demöntunum í bílageiranum í augum safnara og tvímælalaust einn af verðmætustu bílum Porsche til þessa. 

Það er uppboðsfyrirtækið Gooding & Company sem býður bílinn upp. 

Aðdráttarafl bílsins felst í því að hann var notaður í myndinni Le Mans sem bandaríski stórleikarinn og ökuþórinn Steve McQueen lék í árið 1971. Þetta er auk þess enginn venjulegur bíll en hann er sérsmíðaður til kappaksturs. Bíllinn var ekki notaður í myndinni nema á lokametrum í kappakstri sem þar má sjá. 

Til samanburðar fór Ford GT40 sem notaður var í myndinni á 11 milljónir dala, jafnvirði rúmra 1,2 milljarða króna, á uppboði fyrir þremur árum. 

David Gooding hjá uppboðshúsinu bendir á það í samtali við fréttastofu Fox að dýrasti bíllinn sem hann hafi selt var Ferrari 250 Testa Rossa árgerð 1957. Búist sé við að Porsche-inn fari fyrir mun hærra verð enda ýti nafn McQueens verðmiðanum upp og geti hann farið á um og yfir 20 milljónir dala, í kringum 2,3 milljarða íslenskra króna.

Stikkorð: Porsche  • Porsche 917  • Steve McQueen