*

Bílar 9. september 2019

Porsche Taycan frumsýndur

Nýr Porsche Taycan verður ein skærasta stjarnan á bílsýningunni í Frankfurt sem hefst í dag. Taycan er fyrsti 100% rafbíllinn sem Porsche framleiðir.

Taycan er gríðarlega öflugur rafbíll og kemur ekki á óvart enda er þýski sportbílaframleiðandinn ekki þekktur fyrir annað en hraðskreiða bíla. Taycan Turbo er 670 hestafla bíll og skýst í hundraðið á þremur sekúndum sléttum.

Ofurútgáfan Taycan S er enn aflmeiri, alls 750 hestafla og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 2,6 sekúndum. Hámarkshraði Taycan er alls 260 km á klst. Áætluð meðaleyðsla bílsins er 26,9 kílówattsstundir á hverja 100 km og hámarks hleðslustraumur er 270 kW. Það er hægt að hlaða bílinn upp í 80% hleðslu á aðeins rúmum 22 mínútum samkvæmt upplýsingum frá Porsche. 

Taycan notar 800 volta rafkerfi sem gefur honum meira afl við allar aðstæður, styttir hleðslutíma og léttir bílinn. Þetta 800 volta rafkerfi aðgreinir hann frá öðrum rafbílum. Auk þess er hann ólíkt öðrum rafbílum með tveggja gíra sjálfskiptingu sem gerir aðallega tvennt, gefur honum meira afl í upptakinu og meiri hraða í framhaldinu.