*

Bílar 19. nóvember 2020

Porsche Taycan valinn fallegastur

Porsche Taycan gerði sér lítið fyrir og sigraði tvöfalt í ár; í flokkunum Fallegasti bíllinn og Sportbíll ársins.

Nýjasti bíll þýska sprtobílaframleiðandans Porsche, rafbíllinn Taycan, var valinn Fallegasti bíllinn á Gullna stýrinu. Hann var einnig kosinn Sportbíll ársins.

Gullna stýrið hefur verið talin mikilvægustu bílaverðlaun Evrópu í áratugi og var tilkynnt um val á verðlaunahöfum ársins 2020 nú á dögunum. Eins og flestir bílaáhugamenn vita standa þýska bílatímaritið Auto Bild og vikuritið Bild am Sonntag að þessum árlegu atkvæðagreiðslum um bestu bíla ársins. Að þessu sinni var kosið var um 63 ökutæki, í átta flokkum, sem hafa verið á markaðnum síðan í október 2019. VB hefur fjallað um sigurvegara í ýmsum flokkum síðustu daga. Það er lýsandi fyrir tækniþróunina í bílaiðnaðinum að af þeim 24 bílum sem komust í úrslit á þessu ári, eru meira en helmingur með kapaltengingu, ýmist tengiltvinnbílar eða 100% rafbílar.

Porsche Taycan sem tilheyrir síðari flokknum gerði sér lítið fyrir og sigraði tvöfalt í ár; í flokkunum Fallegasti bíllinn og Sportbíll ársins. Það kom líklega fáum á óvart að hann skyldi landa Gullna stýrinu sem fallegasti bíll ársins enda fallega hannaður eins og Porsche bílar eru nú yfirleitt. Með því að hljóta verðlaunin sem Sportbíll ársins er ljóst að Porsche hefur tekist nánast hið ótrúlega; að rafvæða frábæra aksturseiginleika Porsche sportbílsins og hafa þar með betur á því sviði þar sem gríðarlega mikil samkeppni ríkir.

Stikkorð: Porsche  • Taycan