*

Ferðalög & útivist 15. apríl 2017

Portvín og eðalgóður saltfiskur

Sögufræga hafnarborgin Porto, næststærsta borg Portúgal, er kölluð San Francisco Evrópu, en gamli bærinn er allur á heimsminjaskrá Unesco.

Hafnarborgin Porto stendur tignarlega við nyrðri bakka árinnar Douro í norðurhluta Portúgals. Porto er frægust fyrir portvín sín, Vinho do Porto, og raunar er borgin nefnd eftir þeim. Það er ekki skrítið að borgin sé oft kölluð San Francisco Evrópu því hún er byggð í miklum halla.

Porto er sögufræg borg og fyrsta höfuðborg Portúgals. Borgin er ekki í alfaraleið fyrir Íslendinga en það er gaman að heimsækja þessa næststærstu borg landsins sem er skemmtileg og lífleg. Þar mætist svolítið gamli og nýi tíminn.

Þessi borg hefur mikla sögu að segja, sögu sem nær aftur til ársins 300 fyrir Krist. Rómverjar réðu þar ríkjum á drottnunartíma rómverska heimsveldisins. Márar hertóku borgina á 8. öld þegar þeir héldu innreið sína á Íberíuskagann. Portúgal reis upp á miðöldum sem mikið sjóveldi.

Í Porto var hernaðarbandalag Portúgala og Englendinga innsiglað með brúðkaupi á 14. öld og floti herskipa og kaupskipa var smíðaður í borginni á 15. og 16. öld. Í byrjun 19. aldar var borgin hertekin af Frökkum undir stjórn Napóleons. Frönsku herirnir voru þó fljótlega sigraðir af herjum Portúgala og Englendinga.

Friðuð hús og tunnuskálar

Gamli bærinn í Porto er nefndur Baixa og teygir hann sig niður brekkurnar að bakka Douroárinnar. Svæðið þar nefnist Ribeira og einkennist af skemmtilegum, litríkum húsum, kirkjum í barokkstíl og art nouveau höllum.

Gamli bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO og skal engan undra. Meira að segja tunnuskálar portvínshúsanna hinum við Douro í Vila Nova de Gaia eru á heimsminjaskránni auk járnbrúarinnar Ponte de Dom Luis sem er 172 metra löng.

Hún er ein sex brúa borgarinnar og sú stærsta. Hún var byggð af einum aðstoðarmanna hins franska Eiffel. En þótt margar göturnar og byggingarnar séu fallegar þá eru einnig fjöldi húsa í niðurníðslu og mega muna sinn fífil fegri. Það er í raun sorglegt að sjá sums staðar.

Hafnargatan Cais ds Ribeira er mjög sjarmerandi. Við þá götu er smábátahöfn og fjöldi skemmtilegra veitingastaða sem eru í litríkum og fallegum húsum. Þetta eru yfirleitt frekar litlir veitingastaðir og flestir bjóða upp á afbragsgóða fiskrétti.

Vert er að minnast á saltfiskinn, bachalau, sem er alveg frábær. Þá eru vambir, sem nefnast vitas á hinni fallegu portúgölsku tungu, á flestum matseðlum en þótt heimamenn matreiði þær og framreiði af mikilli ást þá eru vambir ekki fyrir alla. Ég myndi frekar mæla með saltfisknum.

Portvín og aftur portvín

Flest portvínin eru framleidd í bænum Vila Nova de Gaia, sem stendur sunnan megin við Douroánna. Það er gaman að gefa sér tíma og ganga yfir hina mikilfenglegu Ponte de Dom Luis-brú og skoða Vila Nova da Gaia bæinn hinu megin Douro og smakka á öllum portvínunum.

Fyrir eina evru fær maður sjúss og portvínið er þá oft framreitt í litlu súkkulaðihjúpuðu glasi sem maður borðar með. Það smakkast unaðslega vel. Brugghúsin bjóða mörg hver upp á skoðunarferðir og þá er vínsmökkun innifalin.

En maður þarf að passa sig aðeins á portvínssmökkuninni því hún tekur í. Enda eru portvínin yfirleitt með um 20% áfengismagn. En það fer enginn til Porto án þess að smakka portvín. Það er alveg á hreinu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Portúgal  • saltfiskur  • Porto  • Portvín