
Katrín Ólína Pétursdóttir hönnuður kynnir um þessar mundir einstaka línu af verndargripum, Primitiva-Talismans. Undanfarin tvö ár hefur hún haft rannsóknarstöðu við Aalto Digital Design Laboratory í Helsinki. Þar hefur hún fengist við rannsóknir á stafrænni tækni og þrívíðri prentun til framleiðslu. „Ég vinn gripina í þrívíddarforriti sem er mikið notað í arkitektúr og við tölvuleikja- og teiknimyndagerð. Teikningarnar mínar eru því næst prentaðar út með þrívíddarprentara sem vaxmódel. Síðan er búið til mót og þegar það er tilbúið er gripurinn steyptur í málm. Þetta ferli býður upp á ótrúlega möguleika varðandi fjölbreytni og sérsniðnar lausnir.“
Margra ára rannsóknir liggja að baki gripunum og þá má nálgast út frá meðal annars tækni, hönnun og myndlist, heimspeki, stærðfræði og náttúrufræði. „Í safninu eru 40 mismunandi gripir sem ég skipti niður í fjögur ríki og undirfylkingar. Um er að ræða verndargripi sem geta hjálpað þeim sem þá bera að jarðtengja sig. Þeir eru úr bronsi, efniskenndir og jarðneskir. Við eyðum svo miklum tíma í Netheimum, í raun aftengd við líkama okkar og lífið allt um kring. Ég vildi nálgast hinar stóru spurningar lífsins og koma með eins konar lausn eða remedíu í formi gripanna. Hver þeirra inniheldur tiltekið þema eða lífsþrá sem maður getur tengt sig við og fókuserað á,“ segir Katrín Ólína.
„Primitiva kemur úr latínu, er kvenkyns mynd af orðinu primitivus og vísar í það sem er upphaflegt - jafnvel frumstætt. Í þessu verkefni er ég að skoða kvenlægan sköpunarkraft sem hefur með innsæi að gera og er tengdur líkamanum. Primitivan hjá mér er lítil formeining sem allir Primitiva-Talismans gripirnir eru byggðir úr. Gripirnir eru í sjálfu sér ekki endilega hannaðir sem skart heldur sem tjáning eða tungumál. Það er skalinn sem ég vann á, sem gerir það að verkum að gripirnir henta til þess að vera bornir sem skart. Þetta verkefni er fyrir mér heimspekilegs eðlis.“
Katrín Ólína Pétursdóttir hönnuður er í viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.